Víkingur úr Reykjavík datt úr leik er Víkingur og Malmö gerðu 3:3 jafntefli í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar á Víkingsvelli í Fossvoginum í kvöld.
Fyrri leikurinn fór 3:2 fyrir Malmö út í Svíþjóð og einvígið fer því samanlagt 6:5.
Víkingar byrjuðu af miklum krafti og virtust mun meira tilbúnir heldur en Malmö. Á 15. mínútu lék Pablo Punyed á mann og annan í vörn Malmö, lagði hann svo fullkomlega í gegn á Karl Friðleif Gunnarsson sem setti hann glæsilega í fjærhornið framhjá Johan Dahlin í marki Malmö, 1:0 og heimamenn í draumalandi.
Eftir mark Víkinga fóru liðsmenn Malmö í fyrsta skipti í einvíginu að sýna af hverju þeir eru sænskir meistarar.
Veljko Birmancevic fékk þó nokkrum sinnum sendingu inn fyrir frá hinum og þessum liðsmönnum Malmö í fyrri hálfleiknum. Það var á 34. mínútu þegar að ein þeirra leiddi að marki. Þá fékk Birmancevic frábæra sendingu inn fyrir frá Isaac Thelin og renndi honum í netið, 1:1 og gestirnir aftur komnir yfir í einvíginu.
Tíu mínútur síðar galopnaði Malmö aftur vörn Víkings. Þar fékk Felix Beijmo sendingu inn fyrir frá Sergio Pena. Beijmo skaut, Ingvar varði en boltinn féll aftur fyrir fætur Svíans sem setti hann í netið, 1:2 og brekka framundan fyrir Víkinga.
Fleiri urðu mörkin ekki og sænsku meistararnir sýndu loks í hvað þeim býr og fóru inn í hálfleikinn marki yfir.
Víkingur hefði ekki getað byrjað síðari hálfleikinn verr því á 47. mínútu skoraði fyrirliði Malmö Andreas Christensen þriðja mark liðsins. Þá þræddi Pena Beijmo í gegn, Beijmo sendi boltann þvert fyrir markið á fyrirliðann sem setti hann framhjá Ingvari Jónssyni og í netið, 1:3 og útlitið orðið ansi svart fyrir Víking.
Pena sendi svo Birmancevic aftur inn í gegn þremur mínútum síðar en skot hasn varð Ingvar vel í markinu.
Ólseigir Víkingar gáfust þó ekki upp ráðalausir því á 56. mínútu sendi Davíð Örn Atlason háan bolta fyrir, Nikolaj Hansen tók hann á kassann og setti hann svo framhjá Lahlin í markinu, laglega gert og Víkingar fengu smá líflínu.
Þetta kveikti aldeilis í Víkingum sem jöfnuðu metin svo á 74. mínútu. Þá tók Punyed stutta hornspyrnu og sendi á Viktor Örlyg Andrason sem sendi hann aftur á Punyed. Punyed sendi boltann fyrir á Hansen sem skallaði boltann á Karl Friðleif sem skallaði sitt annað mark í netið. 3:3 og Víkingar aftur komnir inn í einvígið.
Fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki og lokatölur því 3:3 og 5:6 samtals, Malmö í vil.
Víkingur fer yfir í aðra umferð Sambandsdeildarinnar og mætir The New Saints frá Wales eða Linfield frá Norður-Írlandi. Þau félög leika á morgun.
Malmö mætir Zalgiris frá Litháen í annarri umferð Meistaradeildarinnar