Ef Breiðablik slær ekki UE Santa Coloma út á Kópavogsvellinum í kvöld yrði það meiriháttar áfall fyrir Kópavogsliðið.
Ef KR-ingar myndu slá Pogon frá Póllandi út á Meistaravöllum í kvöld yrði það eitthvert mesta ævintýri í sögu Evrópuleikja íslenskra liða.
Verkefni Breiðabliks og KR í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta eru eins ólík og hugsast getur en þau leika bæði heimaleiki sína í kvöld. KR gegn Pogon klukkan 18.15 og Breiðablik gegn UE Santa Coloma klukkan 19.15.
Breiðablik vann Andorramennina 1:0 í hörkuleik á þjóðarleikvangi Andorra fyrir viku. Ísak Snær Þorvaldsson skoraði sigurmarkið strax á 14. mínútu og þar með standa Blikar mjög vel að vígi.
Komist þeir áfram mæta þeir líklega Bucucnost Podgorica frá Svartfjallalandi sem er með 2:0 forskot gegn Llapi frá Kósóvó fyrir seinni leik liðanna í kvöld.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sagði við mbl.is í gær að hann væri með allan sama mannskap og áður tilbúinn í leikinn.
KR-ingar mættu hinsvegar ofjörlum sínum í Szczecin í Póllandi þar sem þeir töpuðu 4:1. Öflugir Pólverjarnir voru komnir í 4:0 snemma í seinni hálfleik en Aron Kristófer Lárusson minnkaði muninn fyrir KR-inga 20 mínútum fyrir leikslok.
Sigurliðið í þessari viðureign mætir Bröndby frá Danmörku í annarri umferð.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði við mbl.is í gær að Kristinn Jónsson og Finnur Tómas Pálmason væru meiddir en aðrir væru tilbúnir í slaginn gegn Pogon.