Blikar örugglega í næstu umferð

Ísak Snær Þorvaldsson fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Blikana, …
Ísak Snær Þorvaldsson fagnar eftir að hafa jafnað fyrir Blikana, 1:1. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik er komið áfram í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir 4:1-sigur á heimavelli gegn UE Santa Coloma frá Andorra í seinni leik liðanna í 1. umferðinni í kvöld. Breiðablik vann fyrri leikinn á útivelli 1:0 og einvígið samanlagt 5:1.

Breiðablik skapaði sér nokkur fín færi í fyrri hálfleik Viktor Karl Einarsson átti skot rétt framhjá á 17. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni á 29. mínútu þegar hann skaut aftur framhjá úr enn betra færi.

Gestirnir frá Andorra refsuðu því Joel Paredes skoraði fyrsta markið nokkrum sekúndum síðar þegar hann gerði sér lítið fyrir og skoraði á miðjum vallarhelmingi Breiðabliks eftir langa markspyrnu. Hann sá Anton Ara Einarsson framarlega á línunni og skoraði með glæsilegu skoti.

Allt stefndi í að gestirnir færu með 1:0 forystu inn í hálfleik en Ísak Snær Þorvaldsson jafnaði með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks þegar hann mætti sem réttur maður á réttan stað í teignum eftir fyrirgjöf frá Höskuldi Gunnlaugssyni. Staðan í leikhléi var þá 1:1.

Eftir tæpar fimm mínútur í seinni hálfleik gjörbreyttist leikurinn. Gísli Eyjólfsson virtist ætla að koma Breiðabliki í 2:1 en bakvörðurinn Tiago Portuga varði glæsilega á marklínunni. Því miður fyrir hann veifaði finnski dómarinn réttilega rauðu spjaldi og dæmdi vítaspyrnu. Höskuldur fór á punktinn, skoraði af öryggi og kom Breiðabliki í 2:1.

Breiðablik nýtti sér liðsmuninn því Andri Rafn Yeoman bætti við þriðja markinu á 64. mínútu með skoti fyrir utan teig og aðeins þremur mínútum síðar bætti Kristinn Steindórsson við marki eftir þunga sókn. Kristinn kláraði þá af öryggi úr teignum og breytti stöðunni í 4:1 og þar við sat. 

Breiðablik mætir Budućnost Podgorica frá Svartfjallalandi í næstu umferð.

Breiðablik 4:1 UE S.Coloma opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert