Geta borið höfuðið hátt

KR-ingar unnu sterkan heimasigur með einu marki gegn engu á Pogon Szczecin frá Póllandi í kvöld í seinni leik liðanna í 1. umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta á Meistaravöllum. Úrslitin þýða þó að KR-ingar eru úr leik, enda var brekkan ansi brött eftir fyrri leik liðanna.

Vonum var stillt í hóf fyrir leikinn um að KR-ingar gætu komist í 2. umferð, þar sem fyrri leikurinn hafði tapast 4:1, og var ljóst að allt þyrfti að ganga upp gegn firnasterku liði Pogon Szczecin.

Fyrri hálfleikur bar þess kannski merki, þar sem pólska liðið stýrði honum á löngum köflum, án þess þó að skapa sér færi eða ná skoti á markið, en KR-ingar sýndu þess inn á milli ágæta takta í sóknarleiknum.

Það dró hins vegar til tíðinda á 43. mínútu, sem stundum er kölluð markamínútan, þegar bakvörðurinn Aron Kristófer Lárusson átti flotta stungusendingu inn fyrir vörn Pogon. Þar var Sigurður Bjartur Hallsson réttur maður á réttum stað, þar sem hann lék boltanum inn á vítateiginn og skoraði svo með föstu vinstrifótarskoti sem Dante Stipica, markvörður Pogon hafði ekki roð á að verja.

Skömmu síðar fengu KR-ingar gott tækifæri til að bæta við öðru marki, en þá var Atli Sigurjónsson á góðum stað í teig Pogon, en setti boltann framhjá, og var óvíst hvort um skot eða sendingu hefði verið að ræða, þar sem bæði Sigurður Bjartur og Stefan Ljubicic hefðu mögulega getað komið sér í stöðu.  KR-ingar fóru því með góða eins marks forystu inn í seinni hálfleikinn.

Í seinni hálfleik reyndu bæði lið að finna markið, þar sem KR-ingar hefðu þurft tvö mörk til viðbótar, og leikmenn Pogon vildu helst ekki fara með ósigur heim á bakinu úr seinni leiknum. Varð leikurinn galopinn fyrir vikið, þar sem Pogon-menn áttu líklega betri færi, en alltaf vantaði síðustu snertinguna til þess að úr yrði mark.

Næst komust Pogon-menn því að jafna á 76. mínútu, en þá skaut fyrst Jean Carlos og svo Vahan Bichakhchyan á markið, en Beitir og KR-vörnin hreinsuðu af marklínunni. Undir lok leiksins reyndu KR-ingar svo að sækja annað markið, en gekk lítt áleiðis gegn sterku liði Pogon, en bæði lið gátu fagnað, mismikið þó, þegar flautað var til leiksloka.

Leikurinn bar þess auðvitað merki, að þriggja marka munur var á liðunum eftir fyrri viðureignina, og KR-ingar náðu aldrei að ógna þeirri niðurstöðu að ráði. Engu að síður geta þeir gengið mjög stoltir frá borði í Evrópukeppni þetta árið, þar sem þeir náðu ekki bara langþráðum sigri á heimavelli á feiknasterku liði, heldur tryggðu þeir íslenskum félagsliðum einnig stig í baráttunni um að fá aftur fjórða sætið í Evrópukeppni.

Það er því vel hægt að vitna í Bubba Morthens og KR-lagið hans að leikslokum, KR-ingar bera höfuðið hátt eftir þennan leik.

KR 1:0 Pogon opna loka
90. mín. +2 Pogon með innkast við hornfánann hægra megin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert