Sá góða markvörslu hjá vinstri bakverðinum

Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld.
Leikmenn Breiðabliks fagna marki í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Ég er sáttur með sigurinn og sáttur með seinni hálfleikinn sem var öflugur,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 4:1-sigur á UE Santa Coloma í 1. umferð Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Liðið frá Andorra komst yfir í fyrri hálfleik en Blikar jöfnuðu rétt fyrir leikhlé og voru sterkari í seinni hálfleik.

„Ég sagði fyrir leikinn að liðið væri sýnd veiði en ekki gefin og það tók tíma að brjóta þá á bak aftur. Þeir fengu svo sjálfstraust eftir markið sem þeir skoruðu og þess vegna var fínt að klára þetta svona sannfærandi.

Óskar Hrafn Þorvaldsson
Óskar Hrafn Þorvaldsson Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Þú getur ekki haldið að þú farir í gegnum alla leiki án þess að fá á þig mark. Menn hafa áður fengið á sig mark og þá rífa menn sig upp. Mér fannst við svara því vel. Við spiluðum miklu betur eftir að við fengum á okkur markið en í stöðunni 0:0.“

Vendipunktur leiksins átti sér stað snemma í seinni hálfleik þegar Tiago Portuga fékk beint rautt spjald fyrir að verja boltann á marklínu með hendi og Breiðablik fékk víti sem Höskuldur Gunnlaugsson skoraði úr. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir Breiðablik.

„Ég sá góða markvörslu hjá vinstri bakverðinum og það var lítið annað sem dómarinn gat gert en að reka hann út af og dæma víti. Við hefðum tekið  markið og haldið áfram ellefu á móti ellefu. Þetta flækti leikinn að því leytinu til að þeir lögðust niður en á sama tíma var eftirleikurinn auðveldur fyrir okkur.“

Omar Sowe, framherji Breiðabliks, virkaði ósáttur í lok leiks eftir atgang við Fabio Da Fonseca í liði gestanna. „Hann lenti í útistöðum við leikmann númer 20 sem er atvinnumaður í að lenda í útistöðum við andstæðinga sína,“ sagði Óskar Hrafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert