Fyrirliðinn hetja Breiðabliks í Keflavík

Höskuldur Gunnlaugsson var hetja Breiðabliks í kvöld.
Höskuldur Gunnlaugsson var hetja Breiðabliks í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik vann dramatískan 3:2-útisigur á Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, reyndist hetja liðsins en hann skoraði tvö mörk á síðustu tíu mínútunum. 

Breiðablik byrjaði töluvert betur og komst verðskuldað yfir strax á 10. mínútu þegar Omar Sowe slapp inn fyrir vörn Keflavíkur eftir skalla frá Ísaki Snæ Þorvaldssyni og skoraði af öryggi framhjá Sindra Kristni Ólafssyni.

Breiðablik hélt áfram að sækja eftir markið og vildi víti þegar Dani Hattakka, finnskur varnarmaður Keflavíkur, fékk boltann í höndina innan teigs. Jóhann Ingi Jónsson dæmdi ekki neitt, Blikum til mikillar gremju.

Eftir atvikið fór Keflavík að sækja í sig veðrið og jöfnunarmarkið kom á 27. mínútu þegar Adam Árni Róbertsson skoraði með skalla af stuttu færi eftir langt innkast frá Rúnari Þór Sigurgeirssyni.

Keflavík var sterkari aðilinn eftir markið og skapaði sér nokkur færi á meðan Blikar voru ávallt hættulegir hinum megin þegar þeir sóttu. Mörkin urðu hinsvegar ekki fleiri fyrir hlé og voru hálfleikstölur 1:1.

Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn með látum því Patrik Johannesen skoraði strax á 48. mínútu eftir mistök hjá Mikkel Qvist í vörninni og fínan sprett hjá Adam Árna Róbertssyni.

Eftir því sem leið á hálfleikinn herti Breiðablik tökin á leiknum og það skilaði sér í fallegu jöfnunarmarki á 82. mínútu þegar Höskuldur Gunnlaugsson fékk pláss og tíma fyrir utan teig með þeim afleiðingum að hann negldi boltanum í netið af 20 metra færi.

Breiðablik hélt áfram að sækja og sigurmarkið kom í uppbótartíma og það gerði Höskuldur úr víti eftir að Ernir Bjarnason var dæmdur brotlegur innan teigs eftir baráttu við Ísak Snær Þorvaldsson og þar við sat.

Breiðablik er því aftur komið með sex stiga forskot á toppnum en Keflavík er áfram í sjötta sæti með 17 stig.

Keflavík 2:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær víti Jahérna hér, dramatík! Ernir fer aðeins aftan í Ísak og Ísak fer auðveldlega niður og víti dæmt. Ernir trúir ekki að Jóhann Ingi sé að dæma á þetta.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert