Urðu Svartfjallalandi til skammar á Kópavogsvelli

Leikmenn Buducnost voru erfiðir við að eiga í gær.
Leikmenn Buducnost voru erfiðir við að eiga í gær. mbl.is/Árni Sæberg

Svartfellski fjölmiðilinn Vijesti fer ófögrum orðum um Buducnost-liðið sem mætti Breiðabliki í Sambandsdeild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í gær. Breiðablik vann afar viðburðaríkan leik 2:0.

Buducnost lauk leik tveimur mönnum færri, ásamt því að þjálfarinn Aleksandar Nedovic fékk rautt spjald undir lokin. Eftir leik veittust leikmenn Buducnost svo að leikmönnum Breiðabliks, þar til lögregla skarst í leikinn.

„Dettandi, liggjandi, vælandi og að rífast....“ skrifar miðilinn um leikinn. Þar kemur einnig fram að framkoma í líkingu við þá sem leikmenn Buducnost buðu upp á í gær hafi ekki sést í lengri tíma. „Hegðunin var félaginu og Svartfjallalandi til skammar og annað eins hefur ekki sést í langan tíma.“

Þar kemur einnig fram að ekki sé um fyrsta skipti sem leikmenn Buducnost bjóði upp á slíka hegðun í Evrópuleik. Fyrir þremur árum fékk liðið tvö rauð spjöld gegn Zorya Luhansk frá Úkraínu og þá sýndu leikmenn liðsins einnig ógnandi hegðun.

„Þeir höguðu sér eins og villimenn í siðuðu landi, Íslandi. Guð má vita hvað Íslendingum finnst um okkur eftir þetta. Þið urðuð ykkur sjálfum, fótboltanum í Svartfjallalandi og landinu öllu til skammar,“ er einnig skrifað í umfjöllun um leikinn.

Þjálfarinn Aleksandar Nedovic ræddi við miðilinn eftir leik og kvartaði yfir heimadómgæslu í gær en viðurkenndi að leikmenn hafi ekki hjálpað dómaranum með hegðun sinni. „Við vorum eilítið stressaðir og liðið er ungt og óreynt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka