FH og Breiðablik skildu jöfn í markalausum leik í Kaplakrika í Bestu deild karla í kvöld. Blikar voru manni færri í rúmar 80 mínútur, en Davíð Ingvarsson var rekinn út af á 9. mínútu eftir glæfralega tæklingu.
Blikar hefðu getað náð níu stiga forystu á Víkinga á toppi Bestu deildarinnar með sigri hér í kvöld, og bentu upphafsmínútur leiksins til þess að þeir ætluðu sér ekkert annað. Það hljóp hins vegar snurða á þráðinn þegar bakvörðurinn Davíð Ingvarsson fór í glannalega tæklingu á Ástbjörn Þórðarson á 9. mínútu leiksins. Sigurður Hjörtur Þrastarson, dómari leiksins, ráðfærði sig við aðstoðardómara, og ákvað að lyfta upp rauða spjaldinu verðskuldað.
FH-ingum óx nokkuð ásmegin við liðsmuninn og áttu þeir Steven Lennon, Lasse Petry og Vuk Oskar Dimitrijevic allir fín skot á markið, en Anton Ari Einarsson var vandanum vaxinn í marki Blika. Á sama tíma áttu Blikar nokkra spilkafla í fyrri hálfleik, þar sem ekki var að sjá að þeir væru manni færri, án þess þó að þeir gætu nýtt þau færi.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Blika, gerði tvær skiptingar í hálfleik, þar sem þeir Damir Muminovic og Ísak Snær Þorvaldsson komu inn á. Hófst seinni hálfleikurinn með látum, þar sem Viktor Karl Einarsson ákvað að skjóta á markið utan af velli, og small boltinn í slánni.
FH-ingar voru hins vegar áfram sterkara liðið næstu mínútur, en eftir því sem leið á þvarr þeim máttur. Um miðjan seinni hálfleikinn voru Blikar komnir með ágæt tök á leiknum, þrátt fyrir að vera manni færri, og á 73. mínútu kom besta færi leiksins. Blikar áttu þá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi heimamanna sem Höskuldur gaf út til hægri á Jason Daða. Hann gaf boltann fyrir inn á markteig, en þar skóflaði Viktor Örn Margeirsson boltanum yfir opið markið.
Leikurinn var svo mjög opinn og jafn síðustu mínútur leiksins, en Úlfur Ágúst Björnsson, sem kom inn á sem varamaður á 78. mínútu var einna næst því að skora sigurmarkið fyrir heimamenn á 83. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni í uppbótartíma, en þá munaði mjóu að hann næði að setja fótinn í boltann á markteig.
Liðin skildu því jöfn eftir fjörlegan leik sem bauð upp á flest annað en mörk. FH-ingar sýndu eina af sínum bestu frammistöðum í sumar í fyrri hálfleik, en Blikar náðu hins vegar að bæta vel upp fyrir liðsmuninn í seinni hálfleik. Bæði lið geta því verið bæði sátt og svekkt með stigið sem þarna fékkst í hús.
Breiðablik er á toppi deildarinnar með 35 stig, sjö stigum á undan Víkingi sem á leik til góða. FH er með 11 stig í níunda sætinu, jafnmörg og ÍBV sem er í tíunda sæti og einu meira en Leiknir sem er í fallsæti ásamt ÍA.