Spiluðum af mikilli ákefð í kvöld

Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, á hér í skallabaráttu við Guðmund …
Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, á hér í skallabaráttu við Guðmund Kristjánsson, varnarmann FH í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

„Þetta var frekar jafn leikur, og fyrsta tilfinningin er sú að maður er svekktur að hafa ekki unnið þetta,“ segir Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliði Breiðabliks, en lið hans gerði markalaust jafntefli við FH á útivelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Blikar voru manni færri í rúmar 80 mínútur, en áttu þó í fullu tré við heimamenn.

Höskuldur segir að það hafi verið erfitt að vera manni færri í 80 mínútur. „Og þeir eru með mikil einstaklingsgæði, þannig að þetta var svolítið fram og til baka. Þannig að við þiggjum alveg stigið úr því sem komið var.“

Höskuldur segir að þegar Blikar misstu Davíð Ingvarsson af velli á 9. mínútu hafi restin af liðinu þurft að leggja meira á sig. „Við erum þannig lið að við spilum af mikilli ákefð og við vorum sammála um það [inni á vellinum] að við tíu gætum unnið það mikið þannig að það myndi gera sig sem við værum ellefu.“ Menn hafi þurft að vera útsjónarsamir að loka svæðum og vera þéttir fyrir jafnt í sókn sem vörn og jafna leikinn þannig út.

-Þetta er annað árið í röð sem þið farið bónleiðir heim úr Kaplakrika, ertu kannski bara feginn að vera búinn með útileikinn við FH? „Nei, ég segi það ekki, mér finnst alltaf hrikalega gaman að spila hérna. Þetta er mjög flottur völlur, með 15 millimetra gras og alltaf gott að spila fótbolta hérna,“ segir Höskuldur kíminn á svip. „Þetta var extra erfitt í dag, en leikurinn var skemmtilegur, þegar maður er búinn að róa sig, þá var þetta bara fínn fótboltaleikur.“

Næsta verkefni Breiðabliks er Evrópuleikur úti í Svartfjallalandi. Höskuldur segir aðspurður að Blikar séu mjög spenntir fyrir þeim leik. „Ekki spurning, það verður alvöru leikur og sennilega mjög margir brjálaðir Svartfellingar að styðja sitt lið, sem er bara gaman. Við þurfum að sýna sama „attitjúd“ og við sýndum í dag, og þá fer þetta vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert