Endurkomusigur toppliðsins á botnliðinu

Viktor Karl Einarsson og Oliver Stefánsson eigast við í kvöld.
Viktor Karl Einarsson og Oliver Stefánsson eigast við í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Breiðablik vann sterkan 3:1 sigur á ÍA í 15. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

Með sigrinum styrkir Breiðablik stöðu sína á toppnum með 38 stig, níu stigum fyrir ofan Víking úr Reykjavík, sem á þó leik til góða. ÍA er enn neðst með átta stig.

Breiðablik stjórnaði mestmegnis af fyrri hálfleiknum en Skagamenn voru þéttir til baka.

Sóknar- og miðjumenn Blikanna gerðu sig líklega fyrir framan markið en inn vildi boltinn ekki.

Á 26. mínútu fékk Eyþór Aron Wöhler hörkufæri. Þá sóttu Skagamenn vel á vörn Blikanna, Gísli Laxdal sendi boltann þvert fyrir þar sem að Eyþór var við markmannslínuna en hann setti boltann framhjá.

Breiðablik hélt svo áfram að sækja en ÍA átti nokkur góð upphlaup og varðist vel. Þannig er Jóhann Ingi Jónsson dómari flautaði til hálfleiks var markalaust í Kópavoginum.

Blikarnir héldu að þeir væru komnir yfir í byrjun síðari hálfleiksins. Þá skaut Kristinn Steindórsson í Ísak Snæ sem skaut svo en Árni Marinó Einarsson varði frá honum. Ísak náði svo frákastinu eftir darraðardans inn í teignum en markið var dæmt ógilt vegna rangstöðu á Jason Daða Svanþórsson.

Skagamenn komust svo yfir fjórum mínútum síðar. Þá fékk Eyþór Aron boltann hægra megin og sendi hann fyrir á fjærstöngina. Þar var Gísli Laxadal sem stýrðu knettinum í netið, 1:0, og heldur betur óvænt staða komin upp i Kópavoginn.

Eftir mark ÍA fóru Blikarnir í annan gír. Höskuldur Gunnlaugsson átti utanfótarsnuddu í samskeytin stuttu síðar.

Á 62. mínútu komst Höskuldur einn á móti Árna Marinó. Árni varði frá honum og boltinn barst til Ísaks Snæs sem sendi hann á Kristinn sem skaut í varnarmann og í netið, 1:1 og Blikarnir ekki lengi að jafna.

Damir Muminovic kom svo Breiðabliki yfir þremur mínútum síðar. Þá skallaði hann hornspyrnu Höskuldar í bláhornið, flott hornspyrna, flottur skalli og Blikarnir komnir yfir, 2:1

Ísak Snær Þorvaldsson skoraði svo sitt tólfta mark á tímabilinu á 71. mínútu. Þá fékk hann sendingu frá Degi Dan Þórhallssyni og stýrði boltanum í netið framhjá Árna í markinu, 3:1, og Blikarnir alveg búnir að snúa leiknum sér í vil.

Breiðablik hélt áfram að stjórann leiknum sem róðaðist þó. Fleiri urðu mörkum ekki og við stóð 3:1 fyrir Kópavogsliðinu.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Istanbúl Basakeshir í þriðju umferð Sambandsdeildarinnar. ÍA fær Val í heimsókn í næsta leik sínum

Breiðablik 3:1 ÍA opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka