Væri gaman að sjá Özil á Kópavogsvelli

Dagur Dan Þórhallsson og Kaj Leo i Bartalsstovu í leiknum …
Dagur Dan Þórhallsson og Kaj Leo i Bartalsstovu í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég held að ég sé búinn að spila níu stöður í sumar,“ sagði Dagur Dan Þórhallsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:1 sigur á ÍA í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.

„Þetta var allt í lagi leikur hjá okkur. Mér fannst við byrja frekar vel og settum mikla pressu á þá. Svo slokknaði aðeins á okkur og við fórum að gefa boltann léttilega frá okkur sem var eitthvað sem við máttum koma í veg fyrir. 

Við fáum svo á okkur þetta mark. Ég vil meina að ég eigi að éta manninn þar. Ég missi, að ég held, Kaj (Leo) framhjá mér. Hann tekur góða snertingu og sendir inn á Steinar (Þorsteinsson) og þeir skora mark sem var virkilega vel gert. 

Við það fannst mér kvikna almennilega á okkur. Eftir að við skoruðum þetta fyrsta mark þurftum við að keyra á þá og mér fannst við gera það. 

Við erum með leikmenn sem eru með gæði fyrir framan markið og það var ekki alveg að detta fyrir okkur í fyrri hálfleik. Það kom svo í seinni hálfleik þegar að Kiddi (Kristinn Steindórsson) setti hann og við klárum þetta síðan sem var virkilega sætt.“ 

Dagur Dan spilaði í vinstri bakvaraðar stöðunni í dag en hann er að upplagi miðjumaður. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari hefur notað hann í mörgum stöðum í sumar.

„Ég held að ég sé búinn að spila níu stöður í sumar sem er svosem fínt. Ef ég er að spila í toppliði í íslensku úrvalsdeildinni þá er ég svosem ánægður. Þetta er gaman og ég læri af þessu.“

Finnst þér Óskar sýna þér ákveðið traust með þessu?

Já algjörlega, ég er þakklátur fyrir það traust. Það er gaman að spila allar mínútur og alla leiki.“ 

Bjóstu við því að spila svona mikið í byrjun móts?

“Nei, klárlega ekki og hvað þá í vinstri bakverði í nokkra leiki. En Davíð var í banni og kemur sterkur til baka í næsta leik enda frábær bakvörður. Ef ég er að spila og liðið er að vinna þá er ég sáttur.“ 

Breiðablik mætir tyrkneska liðinu Istanbúl Basaksehir í næsta leik sínum í 3. umferð Sambandadeildarinnar. Dagur spáir fróðlegum leik. 

„Það verður virkilega fróðlegur leikur. Það væri gaman að sjá Mesut Özil á Kópavogsvelli og sjá hvort hann sé með einhverja skemmtilega takta. Mér finnst ólíklegt að hann mæti en það væri allavega mjög gaman að fá að spila á móti leikmanni sem var talinn vera einn besti leikmaður heims á einum tímapunkti. Það verður gaman að sjá hvað þeir geta,“ sagði Dagur Dan að lokum. 

Mesut Özil gæti spilað á Kópavogsvelli í vikunni.
Mesut Özil gæti spilað á Kópavogsvelli í vikunni. Twitter/M10
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert