Blikarnir í erfiðri stöðu eftir fyrri leikinn

Ísak Snær Þorvaldsson á fleygiferð í kvöld.
Ísak Snær Þorvaldsson á fleygiferð í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik tapaði 1:3 fyrir Istanbúl Basaksehir í Í fyrri leik liðanna í 3. umferð Sambandsdeildarinnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. 

Breiðablik sló út Buducnost Podgorcia frá Svartjallalandi 3:2 samanlagt til þess að komast áfram í 3. umferðina. Basaksehir sló út Maccabi Netanya frá Ísrael 2:1 samanlagt. 

Fyrri hálfleikurinn var ansi jafn. Kópavogsmenn fengu sín færi og má þar nefna skot Dags Dan Þórhallssonar sem fór rétt yfir markið eftir flotta sókn og sendingu frá Höskuldi. Gestirnir fengu einnig sín færi og þar helst Mounir Chouair sem var kominn einn á einn á móti Antoni Ara Einarssyni sem varði glæsilega frá honum. 

Þegar sjö mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum brutu gestirnir þó ísinn. Þá fékk Hasan Ali Kaldirim boltann út á vinstri kantinum. Hann sendi hann svo þvert fyrir í gegnum pakkann á Serbann Danijel Aleksic sem renndi honum í netið, 1:0 og Tyrkirnir komnir yfir. 

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og það voru því gestirnir sem leiddu er liðin gengu til búningsklefa. 

Gestirnir tvöfölduðu svo forystu sína þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þá átti Chouair sniðuga sendingu inn fyrir á Deniz Turuc sem var galopin á fjærstönginni og setti boltann skringilega undir Anton Ara og í netið, 2:0 og Blikarnir komnir í klandur. 

Eftir þetta kviknaði aðeins í Blikunum sem fengu nokkur góð færi og hálffæri á næstu mínútum. Það skilaði sér á 63. mínútu. Þá lék Kristinn Steindórsson vel á varnarmenn Basaksehir og sendi boltann út á Viktor Karl Einarsson sem var rétt utan teigs. Hann smellti boltanum í fyrsta í fjærhornið og minnkaði muninn í 1:2, virkilega vel gert. 

Leikurinn róaðist aðeins eftir þetta mark en bæði lið fengu fín færi. Á 83. mínútu fengu Blikarnir hraðaupphlaup eftir hornspyrnu gestanna. Ísak Snær Þorvaldsson hljóp upp með boltann og þeir voru komnir fjórir gegn tveim. Ísak Snær reyndi að senda boltann á Gísla en hann fór af varnarmanni og aftur á Ísak sem lét sig svo falla í teignum og vildi vítaspyrnu en dómarinn, sem var beint fyrir aftan atvikið, dæmdi ekki neitt. 

Tyrkirnir gerðu svo Blikunum lífið leitt á annarri mínútu uppbótartíma. Þá var Ali Kaldirim aftur með boltann út á vinstri kantinum og sendi hann þvert fyrir aftur á Aleksic sem stýrði honum aftur í netið, 3:1 og verkefnið orðið ansi erfitt.

Fleiri urðu mörkin ekki og það eru því gestirnir sem fara með 3:1 forystu til Tyrklands. 

Liðin leika næst á fimmtudaginn eftir viku í Istanbúl. Breiðablik fer þó í Garðabæinn í millitíðinni og mætir Stjörnunni. 

Breiðablik 1:3 Basaksehir opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka