Keflavíkurgrýla, þolinmæði og að nýta sér tap

Natasha Anasi
Natasha Anasi Ljósmynd/KSÍ

„Við ætluðum í dag bara að spila eins og við gerum venjulega, vissum að ef við gerðum það myndum við vinna þennan leik og það gerðum við,“  sagði Natasha Anasi fyrirliði Breiðabliks eftir 3:0 sigur á fyrrverandi samherjum hennar í Keflavík þegar liðin mættust í Kópavoginum í kvöld í efstu deild kvenna í fótbolta, Bestu deildinni.

Keflavík vann fyrri leik liðanna í sumar, reyndar líka í fyrra og það var nýtt til hins ýtrasta en fyrsta markið lét bíða eftir sér.  „Við notuðum rækilega úrslitin úr fyrri leiknum, við biðum eftir þessum leik og hann skyldi svo sannarlega vinnast.  Tapið í fyrri leiknum sat því aðeins í okkur en við komum undirbúnar í þennan leik. 

Við urðum að halda okkar striki, vissum að í fyrri leiknum var þetta ekki að detta fyrir okkur og það spennustigið var jafnvel aðeins of hátt en vissum líka að ef við reyndum okkar sækja mikið myndi það skila marki og það gekk í dag.  Þegar var dæmt af okkur mark í fyrri hálfleik kom smá bakslag en auðvitað breytir miklu að skora á lokasekúndum fyrri hálfleiks,“ sagði fyrirliðinn en Natasha kom til Breiðabliks frá Keflavík fyrir þetta tímabil.

Blikakonur fylgja því Íslandsmeisturum Vals í humátt á nú munar tveimur stigum á liðunum en fyrirliðinn spáir ekkert í það.  „Við hugsum samt um að taka bara einn leik fyrir í einu, einbeita okkur að hverjum leik og taka þetta skref fyrir skref.“ 

Keflavíkurgrýlan

Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðablikskvenna talaði um Keflavíkurgrýluna, sem hefur verið mörgum Blikanum hugleikin síðustu tvö árin.  „Það hefur aðeins verið talað um einhverja Keflavíkurgrýlu og okkur tókst ekki að vinna Keflavík í fyrra, töpuðum þá öðrum leiknum og gerðum jafntefli í hinum, töpuðum svo í byrjun móts en ég held að það hvorki hjálpað né skemmt fyrir okkur en við vorum ákveðin í að svara fyrir það, ætluðum að sýna okkar rétta andlit,“ sagði þjálfarinn eftir leikinn. 

Það var pressa á Blikum að stöðva tak Keflavíkur á Blikum, sem þjálfarinn segir að sýnt sig í háu spennustigi.  „Það mátti alveg sjá hvernig spennustigið féll þegar við komum boltanum í markið í fyrri hálfleik því það var eins þrjú hundruð kíló færu af okkar herðum.  Það kom síðan pínulítið stress í okkur þegar markið var dæmt af og við náðum ekki alveg að opna leikinn en eftir að við náum að skora fannst mér aldrei vafi um hvort við myndum vinna og ég hafði engar áhyggjur af því. Við viljum mæta grimmar með sóknarhug í hvern einasta leik, sækjum á mörgum og það gekk bara vel í dag myndi ég segja.“

Þolinmæði og halda áfram

Blikinn Clara Sigurðardóttir, sem átti góðan leik og veit líklega að þolinmæði er dyggð.  „Mér fannst þetta bara flottur leikur hjá okkur, ég er mjög sátt með liðið í heildina og fannst það spila flottan fótbolta svo við áttum sigurinn skilinn.  Við spilum alltaf sóknarbolta og vissum að þær myndu jafnvel liggja aðeins til baka svo þetta yrði þolinmæðisvinna fyrir okkur en mér fannst við leysa það vel, héldum endalaust áfram þar til mörkin fóru að detta inn. Við ætlum ekkert að misstíga okkur heldur erum bara á fullri ferð áfram og gefum okkur allar í hvern einasta leik,“  sagði Clara eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert