Fram og Víkingur úr Reykjavík gerðu fjörugt 3:3 jafntefli í leik sínum í Bestu deild karla í fótbolta á Framvelli í Úlfarsárdal í kvöld.
Það voru Framarar sem tóku forystuna strax á 11. Mínútu með góðu marki Magnúsar Þórðarsonar af stuttu færi eftir að hafa fengið boltann frá Guðmundi Magnússyni sem hafði tekið við fyrirgjöf Jesús Yendis frá vinstri kantinum. Það voru hins vegar Víkingar sem réðu lögum og lofum inn á vellinum nær allan fyrri hálfleikinn og voru óheppnir að vera ekki búnir að skora þegar Helgi Mikael Jónasson flautaði til hálfleiks.
Viktor Örlygur Andrason fór illa með dauðafæri strax á fyrstu mínútu þegar hann skaut framhjá eftir að hafa sloppið einn í gegn Ólafi Íshólmi Ólafssyni í markinu. Davíð Örn Atlason og Birnir Snær Ingason fengu svo báðir gott færi á 24. mínútu en í bæði skiptin varði Ólafur vel í marki heimamanna. Rétt fyrir hálfleik átti Pablo Punyed svo gott tækifæri til að jafna metin þegar hann skallaði boltanum beint á Ólaf af stuttu færi í kjölfar hornspyrnu. Þrátt fyrir mikla pressu Víkinga var staðan 1:0 í hálfleik, Frömurum í vil.
Síðari hálfleikurinn var síðan spilaður eftir svipaðri uppskrift, Víkingar héldu áfram að pressa en aftur voru það Framarar sem skoruðu. Albert Hafsteinsson skallaði boltann í markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Magnúsar á 56. mínútu til að bæta við forystu Framara, tvö mörk úr tveimur skotum. En strax í kjölfarið átti leikurinn eftir að snúast algjörlega við.
Víkingar svöruðu strax, minnkuðu muninn mínútu síðar með marki frá Davíð Erni Atlasyni sem skallaði boltann upp í hægra hornið eftir fyrirgjöf Loga Tómassonar. Þetta var ekki í síðasta sinn sem tvö mörk voru skoruðu með mínútu millibili í leiknum.
Gestirnir jöfnuðu metin á 63. mínútu, Helgi Guðjónsson skoraði það gegn sínu gamla félagi, af stuttu færi eftir að Logi hitti ekki boltann inn í teig og hann barst til Helga. Framarar tóku svið miðju og misstu boltann strax, varamaðurinn Ari Sigurpálsson fékk hann inn í teig og sendi hann fyrir markið þar sem Erlingur Agnarsson var mættur á fjærstönginni til að skora af stuttu færi, staðan skyndilega orðin 2:3, Víkingum í vil.
Dramatíkinni var þó ekki lokið því heimamönnum tókst að kreista fram jöfnunarmark til að hreppa stig á 87. mínútu í kjölfar hornspyrnu Tiago Fernandes. Guðmundur Magnússon skallaði að marki áður en Brynjar Gauti Guðjónsson skóflaði boltanum í netið, nánast úr höndunum á Ingvari Jónssyni í marki Víkinga og var gestunum ekki skemmt. Þeir voru þeirrar skoðunar að Ingvar væri kominn með boltann í fangið en Helgi Mikael dómari taldi markið gott og gilt.
Það dugði Frömurum til að næla í stig og eru þeir áfram ósigraðir hér á nýjum heimavelli sínum eftir fjóra leiki, hafa unnið einn og gert þrjú jafntefli. Víkingar misstu hins vegar af frábæru tækifæri til að saxa aðeins á forskot toppliðs Breiðabliks sem tapaði gegn Stjörnunni í kvöld. Munurinn á liðunum er nú átta stig en Víkingar eiga þó leik til góða.
Það var alltaf að fara verða erfitt fyrir Víkinga að mæta í Úlfársárdalinn hér í kvöld eftir erfiðan leik gegn pólska stórliðinu Lech Poznan í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudaginn var. Víkingar eiga svo seinni leikinn í Póllandi á fimmtudaginn kemur. Þeir voru þó engu að síður hársbreidd frá mikilvægum sigri gegn spræku liði Framara og spurning hvort Helgi Mikael dómari hafi leikið þá grátt. Víkingar voru handvissir um að Brynjar Gauti hafi gerst brotlegur í jöfnunarmarkinu. Ingvar markvörður var í boltanum, en spurning er hvort hann hafi verið með vald á honum. Aðrar stórar ákvarðanir féllu ekki í kramið á báðum liðum. Framarar vildu dæmda aukaspyrnu rétt áður en Víkingar skora fyrsta mark sitt í kvöld, en fengu ekki.
Víkingar halda nú til Póllands fyrir síðari viðureign sína við Lech Poznan en mæta svo Breiðablik í toppslag mánudaginn 15. ágúst. Framarar fá Leikni úr Reykjavík í heimsókn sama kvöld.