Stórsigur Stjörnunnar á Breiðabliki

Adolf Daði Birgisson og Viktor Örn Margeirsson berjast um boltann …
Adolf Daði Birgisson og Viktor Örn Margeirsson berjast um boltann í kvöld. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Stjarnan og Breiðablik mættust í sjö marka leik í Bestu deild karla í fótbolta í Garðabænum í kvöld þar sem Stjarnan fór með sigur af hólmi í leiknum sem endaði 5:2.

Þetta var aðeins annar ósigur Breiðabliks í sextán leikjum í deildinni og liðið er þrátt fyrir tapið átta stigum á undan Víkingi og KA. Stjarnan styrkti stöðu sína í fjórða sæti deildarinnar og er tveimur stigum á eftir Víkingi og KA.

Staðan í hálfleik var eitthvað sem fáir hefðu spáð en 3:1 var á töflunni þegar liðin héldu til búningsklefa, Stjörnunni í hag.

Eftir einungis fimm mínútna leik skoraði Eggert Aron Guðmundsson fyrir Stjörnuna. Hann náði frákastinu eftir að skot frá Ísak Andra Sigurgeirssyni fór í Damir Muminovic varnarmann Blika. Eggert var með Höskuld Gunnlaugsson á móti sér og Damir fyrir aftan hann þegar hann skaut fast með jörðinni í hornið fjær, 1:0. 

Kristinn Steindórsson jafnaði metin á 30. mínútu eftir stoðsendingu frá Viktori Karli Einarssyni. Viktor hafði  nægan tíma til að finna Kristinn á stönginni  fjær, hann jafnaði 1:1 og með því kom smá kraftur í Blika.

Stjarnan var ekki lengi að drepa það niður með marki frá Emil Atlasyni á 37. mínútu eftir frábæran sprett  og sendingu frá Ísaki Andra. Emil hafði allan tíma í heiminum fyrir framan vítateig Blika, leit upp og negldi boltanum í bláhornið, frábært skot, 2:1.

Þriðja mark Stjörnunnar kom stuttu eftir það en þar var Eggert Aron aftur á ferð. Haraldur Björnsson markvörður fór út úr vítateignum og átti sendingu upp allan völlinn, Eggert var með frábæra móttöku þegar boltinn kom yfir hann og setti síðan boltann yfir Anton Ara Einarsson í markinu. Staðan var því 3:1 í hálfleik.

Seinni hálfleik byrjuðu bæði lið af krafti og komust  í góð færi en næsta mark kom eftir um 70 mínútna leik og þá jók Stjarnan forskot sitt á Blika í 4:1 með marki frá Guðmundi Baldvin Nökkvasyni. Hann fékk sendingu í gegnum vörnina frá Emil og var þá einn á einn á móti markmanni og renndi boltanum í markið. 

Þrem mínútum seinna skoraði Stjarnan sitt fimmta mark eftir aðra stoðsendingu í röð frá Emil Atlasyni. Í þetta sinn sendi hann á Elís Rafn Björnsson sem kom boltanum í netið, 5:1.

Stjarnan eignaði sér leikinn eftir þetta þar til Viktor Karl Einarsson klóraði í bakkann með öðru marki Blika eftir stoðsendingu frá Gísla Eyjólfssyni. Það mark var það síðasta sem gerðist í leiknum og hann flautaður af í rugluðu stöðunni 5:2, Stjörnunni í vil.

Stjarnan 5:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Stjörnumenn eru bara mun líklegri til að ná inn 6. markinu heldur en Blikar sínu öðru og fá tvær mínútur í uppbótartíma til að koma því inn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert