Ætla að halda áfram að stíga upp

Taylor Ziemer og Betsy Hassett í leiknum í kvöld.
Taylor Ziemer og Betsy Hassett í leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór

„Þurfum að gera betur en í dag,“ sagði ungi sóknarmaður Breiðabliks Vigdís Lilja Kristjánsdóttir í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli gegn Stjörnunni í Bestu deild kvenna í fótbolta í Garðabæ í kvöld. 

Leikurinn í kvöld var hörkuleikur á milli tveggja góðra liða. Allt leit út fyrir að Breiðablik myndi landa sigrinum en á 89. mínútu jafnaði varamaðurinn Aníta Ýr Þorvaldsdóttir metin fyrir heimakonur. 

„Þetta var mjög svekkjandi og sérstaklega undir lok leiks, við hefðum átt að halda þetta út. Við vorum svolítið undir í seinni hálfleik og það var gott að ná mörkunum inn en það var mjög svekkjandi að fá þetta mark á okkur í lokin.

Almennt vorum við ekki á okkar degi í dag. Við höfum spilað betur, þetta var ekkert sérstakt hjá okkur í dag.“

Ætlar að halda áfram að stíga upp.

Vigdís jafnaði metin í 1:1  eftir 66. mínútna leik með þrumuskoti í þaknetið. Hún hefur fengið stórt hlutverk í liði Breiðabliks eftir að hún kom til baka úr láni frá Keflavík. 

„Ég er mjög stolt að ná loksins inn marki og það léttir smá á manni. Ég hef trú á þessu og ætla að halda áfram að stíga upp.“

Næst mætir Breiðablik Selfossi í bikarnum á Selfossi.  

„Það er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur og við þurfum að gera betur en við gerðum í dag ef við ætlum að koma okkur áfram. Þetta verður bara hörkuleikur, mjög spennandi,“ sagði Vigdís að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert