„Höfum harma að hefna“

Þórhildur Ólafsdóttir innsiglaði sigur ÍBV í kvöld.
Þórhildur Ólafsdóttir innsiglaði sigur ÍBV í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þórhildur Ólafsdóttir kom inn á sem varamaður hjá ÍBV í leik liðsins á móti KR á Hásteinsvelli í 13. umferð Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Þórhildur kom inn á þegar Viktorija Zaicikova fór meidd af velli á 69. mínútu. Eyjakonur áttu ekki eftir að sjá eftir þessari skiptingu því Þórhildur átti eftir að stimpla sig vel inn í leikinn á lokamínútum leiksins.

Þórhildur á að baki 180 leiki og var markið í kvöld hennar sextugasta og sjötta mark.

„Ótrúlega gaman að skora í kvöld. Það er langt síðan ég skoraði síðast,“ sagði hún í samtali við mbl.is eftir leik.

KR var með yfirhöndina í fyrri hálfleiknum en allt annað var að sjá Eyjaliðið í seinni hálfleiknum. Fróðlegt væri að vita hvað þjálfarinn sagði við sína leikmenn í hálfleik.

„Ég var ekki inni í klefa í hálfleik, ég var úti að hita. En það voru gerðar taktískar breytingar í hálfleik. Við þurftum að breyta einhverju inni á vellinum, KR-ingarnir voru með yfirhöndina í hálfleik.

Mér fannst við koma út sem annað lið í seinni hálfleik og við náðum að snúa við blaðinu. Ég hafði aldrei á tilfinningunni að við værum að fara að tapa þessum leik,“ sagði Þórhildur.

„Þetta hefur komið áður fyrir í sumar, að við séum sem sagt pínu sofandi í fyrri hálfleik og náum svo að snúa við blaðinu í seinni hálfleik,“ bætti hún við.

Það virtist vera sem breytingar á liðinu hefðu góð áhrif á spilamennsku liðsins en Hanna Kallmaier og Kristín Erna Sigurlásdóttir komu inn á í hálfleik fyrir þær Þóru Björg Stefánsdóttir og Helenu Jónsdóttir. Hanna og Kristín Erna eru báðar lykilleikmenn í liðinu og því skrýtið að sjá þær ekki byrja í dag. Þriðja skiptingin hjá ÍBV var svo Þórhildur á 69. mínútu.

„Ég vissi að Kristín væri að fara inn á fljótlega en ég var ekki viss um að ég væri að fara að spila eitthvað mikið því ég er búin að vera meidd síðan 15. maí. En af því að Viktorija meiðist þá kem ég inn.

Mér fannst Kristín og Hanna koma inn með hellings kraft, sem kemur mér ekki á óvart. Báðar mjög góðir leikmenn og gott að eiga svona leikmenn á bekknum sem geta komið inn og breytt leiknum,“ sagði Þórhildur.

Þessi sigur hjá ÍBV í kvöld fleytti liðinu upp í fjórða sætið um stund áður en Þróttur úr Reykjavík krækti í það að nýju. Næsti leikur liðsins er einmitt á móti Þrótti Reykjavík.

„Það er bara sex stiga leikur sem við verðum að vinna. Við náttúrlega sátum eftir með sárt ennið eftir heimaleikinn á móti Þrótti.

Þá vorum við yfir í hálfleik  en þær komu tilbaka í seinni hálfleik í vindasömum leik. Það var mjög sárt að tapa þeim leik þannig að við höfum harma að hefna,“ sagði hún að lokum í samtali við mbl.is.

Þróttur Reykjavík tekur á móti ÍBV í 13. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu 16. ágúst klukkan 18.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka