Erlendi Eiríkssyni knattspyrnudómara varð það á að reka rangan leikmann af velli í leik Selfoss og Þórs frá Akureyri, sem stendur yfir þessa stundina í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Selfossi.
Staðan er 1:1 í leikhléi og mat Erlendur það sem svo að leikmaður Þórs hafi brotið á Hrvoje Tokic sem hafi verið að sleppa einn í gegn.
Samkvæmt heimildum mbl.is var sá brotlegi Orri Sigurjónsson en Erlendur rak Hermann Helga Rúnarsson hins vegar af velli fyrir brot sem aftasti maður.
Samkvæmt textalýsingu Fótbolta.net frá leiknum maldaði Hermann Helgi í móinn um langt skeið og nú er það komið í ljós að mótmælin voru því skyni að koma Erlendi í skilning um að hann hafi ekki verið sá brotlegi.