HK hafði betur gegn botnliði Þróttar úr Vogum, 4:1, er liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Kórnum í kvöld.
Bruno Soares kom HK yfir eftir tæplega hálftíma leik en Magnús Andri Ólafsson jafnaði metin fyrir gestina skömmu fyrir leikhlé.
Í síðari hálfleik gengu heimamenn á lagið og bættu við þremur mörkum á níu mínútna kafla.
Fyrst skoraði Hassan Jalloh á 70. mínútu, þá Ásgeir Marteinsson á 73. mínútu og Jalloh var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu með sínu öðru marki og fjórða marki HK.
Eftir sigurinn er HK áfram í efsta sæti deildarinnar, nú með 37 stig, fjórum meira en Fylkir í öðru sæti en Árbæingar eiga leik til góða.
Þróttur með 6 stig, 11 stigum frá öruggu sæti.