Þolinmæðisverk er KA komst í undanúrslit með sigri á Ægi

Hallgrímur Mar Steingrímsson skýtur að marki Ægis í kvöld.
Hallgrímur Mar Steingrímsson skýtur að marki Ægis í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Bestu deildar lið KA er komið í undanúrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 3:0-heimasigur gegn 2. deildar liði Ægis frá Þorlákshöfn.

KA-liðið var töluvert betra liðið í fyrri hálfleik og sérstaklega þegar leið á. Ægismenn lágu aftarlega og beittu skyndisóknum eins og við var að búast og sköpuðu nokkrum sinnum ágætis færi. KA hins vegar fékk mörg færi og þá sérstaklega Elfar Árni Aðalsteinsson. Hann fékk besta færi fyrri hálfleiks þegar hann fékk boltann aleinn í markteignum undir lok hálfleiksins en á einhvern ótrúlegan hátt hitti hann ekki markið heldur setti boltann í stöngina.

Seinni hálfleikurinn var svo áframhaldandi eign heimamanna. KA sótti án afláts en á einhvern ótrúlegan hátt hélt Ægir hreinu lengi vel. Það var svo þegar um korter var eftir þegar ísinn loks brotnaði en þá skoraði Sveinn Margeir Hauksson af stuttu færi eftir undirbúning Jakobs Snæs Árnasonar og Nökkva Þeys Þórissonar. Ekkert minna en verðskuldað mark og eiginlega ótrúlegt að það hafi ekki komið fyrr.

Í uppbótartíma bætti svo Nökkvi Þeyr við tveimur mörkum. Fyrra markið var einkar glæsilegt en hann fékk þá boltann stutt eftir horn, fór með hann inn á teiginn og kláraði frábærlega sláin inn. Skömmu síðar fékk hann boltann svo vinstra megin á vellinum í skyndisókn, fór inn á teiginn og kláraði virkilega vel í nærhornið.

KA verður því í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit en bikarævintýri Ægis er á enda. Á morgun kemur í ljós hvort það verður FH eða Kórdrengir sem verða einnig í pottinum .Í næstu viku mætast svo Víkingur og KR annars vegar og HK og Breiðablik hins vegar.

KA 3:0 Ægir opna loka
90. mín. KA fær hornspyrnu Á sama tíma er tilkynnt um þriggja mínútna uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert