Blikar úr leik eftir tap í Tyrklandi

Dagur Dan Þórhallsson með boltann í fyrri leik liðanna.
Dagur Dan Þórhallsson með boltann í fyrri leik liðanna. mbl.is/Hákon Pálsson

Breiðablik er úr leik í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta eftir 0:3-tap gegn Istanbúl Basaksehir í seinni leik liðanna í 3. umferðinni í dag. Tyrkneska liðið vann fyrri leikinn 3:1 og einvígið samanlagt 6:1.

Blikar vörðust vel stærstan hluta fyrri hálfleiks og gáfu fá færi á sér. Heimamenn voru hinsvegar mun meira með boltann og voru hættulegri nánast allan hálfleikinn. Það skilaði sér í fyrsta marki leiksins á 44. mínútu er Stefano Okaka kláraði af stuttu færi í teignum og var staðan í leikhléi 1:0.

Svipað var upp á tengingum í seinni hálfleik. Heimamenn voru mikið með boltann og náðu Blikar ekki að skapa sér mikið. Annað markið kom á 74. mínútu og það gerði miðvörðurinn Ahmed Touba er hann fylgdi á eftir í teignum.

Danijel Aleksic, sem skoraði tvö mörk í fyrri leiknum, bætti við þriðja markinu á 84. mínútu með föstu skoti við vítateigslínuna og þar við sat.

Breiðablik getur gengið stolt frá borði í Sambandsdeildinni í ár. Liðið vann tvö einvígi en mætti einfaldlega ofjarli sínum í Basaksehir.

Basaksehir 3:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert