Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er farin frá mexíkóska félaginu Club América, eftir hálfs árs dvöl.
Miðjukonan gekk í raðir Club América eftir veru hjá Houston Dash í bandarísku atvinnumannadeildinni, en hún hefur einnig leikið með Le Havre í Frakklandi.
Futbol Total í Mexíkó greinir frá að Andrea hafi ekki staðist væntingar hjá félaginu og hún fengið lítið að spila. Andrea lék sex af síðustu tólf leikjum Club América á seinni hluta síðasta tímabils en hafði ekkert komið við sögu í fyrstu fjórum leikjum liðsins á nýju tímabili.
Hin 26 ára gamla Andrea hefur leikið 12 leiki með A-landsliði Íslands. Hún á að baki 127 leiki með Breiðabliki í efstu deild, þar sem hún hefur skorað 10 mörk.