Ísak Snær Þorvaldsson lék ekki með Breiðabliki í síðari leik liðsins gegn Istanbúl Basaksehir í 3. umferð Sambandsdeildar UEFA í knattspyrnu karla í gærkvöldi vegna höfuðhöggs sem hann fékk í síðasta deildarleik Blika, gegn Stjörnunni.
Í leiknum gegn Stjörnunni fékk hann heilahristing og var það í þriðja sinn á þremur vikum sem hann fékk höfuðhögg og í annað sinn sem hann fékk heilahristing. Fékk hann heinni höfuðhögg í báðum leikjunum gegn Buducnost Podgorica í 2. umferð Sambandsdeildarinnar.
„Ég er búinn að fá þrjú höfuðhögg á sirka þremur vikum og tvisvar er ég búinn að fá heilahristing. Ég spilaði í gegnum fyrri heilahristinginn.
Núna fékk ég svo boltann í hausinn og var frekar slæmur. Það var ákveðið að ég myndi hvíla þennan leik,“ sagði Ísak Snær í samtali við Fótbolta.net, og átti þá við leikinn gegn Basaksehir í gær.
„Þetta var bolti í hausinn og hausinn var orðinn næmur eftir fyrri högg. Það þurfti lítið til að fá heilahristing aftur,“ bætti hann við um höggið gegn Stjörnunni.
Óljóst er hvenær Ísak Snær getur snúið aftur á völlinn og því ríkir óvissa um þátttöku hans í stórleik Breiðabliks gegn Víkingi úr Reykjavík næstkomandi mánudagskvöld.
„Ég er með smá hausverk núna en ég er miklu betri en ég var. Ég er búinn að fara í próf og er í sjúkraþjálfun. Vonandi verð ég kominn til baka sem fyrst,“ sagði hann einnig í samtali við Fótbolta.net.