Breiðablik í bikarúrslit og mætir Val

Agla María Albertsdóttir gerði fyrra mark Breiðabliks.
Agla María Albertsdóttir gerði fyrra mark Breiðabliks. mbl.is/Arnþór Birkisson

Breiðablik hefur möguleika á því að verja bikarmeistaratitilinn í knattspyrnu kvenna en liðið lagði Selfoss í undanúrslitum Mjólkurbikarsins á Selfossvelli í dag, 2:0.

Breiðablik mætir því Val í úrslitaleiknum á Laugardalsvellinum þann 27. ágúst næstkomandi.

Leikurinn á Selfossi í dag var fjörugur og Selfyssingar voru inni í leiknum allan tímann. Bæði lið höfðu átt álitlegar sóknir áður en Agla María Albertsdóttir kom Blikum yfir á 19. mínútu með hrikalegu marki. Katla María Þórðardóttir sendi boltann til baka á Tiffany Sornpao í marki Selfoss, Agla mætti í pressuna og Tiffany þrumaði boltanum í Öglu og þaðan lak hann yfir marklínuna.

Mörkin hefðu getað orðið fleiri í fyrri hálfleik. Selfoss átti nokkrar góðar sóknir og var oft í góðri stöðu í vítateig Blika en síðasta ákvörðunin í sókninni var sjaldnast rétt. Þá voru Blikar hættulegir í hornspyrnunum þar sem Natasha Anasi var iðulega mætt til þess að skalla boltann.

Seinni hálfleikurinn var bragðdaufari en sá fyrri. Sóknarþungi Selfoss jókst þegar leið á en færin létu á sér standa. Í uppbótartímanum gerði Breiðablik síðan út um leikinn. Helena Ósk Hálfdánardóttir kom inná sem varamaður og hún var búin að vera inni á vellinum í rúma mínútu þegar hún tók á rás inn í vítateig Selfoss og negldi boltanum í skeytin inn.

Sanngjarn sigur Blika þegar upp var staðið en Selfyssingar þurfa að brýna takkana fyrir átökin í Bestu deildinni og reyna að finna leiðina að marknetinu.

Selfoss 0:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er fimm mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka