Frábært að fá farseðilinn á Laugardalsvöllinn

Agla María Albertsdóttir
Agla María Albertsdóttir Ljósmynd/Kristinn Steinn

Agla María Albertsdóttir lék vel í liði Breiðabliks í dag, sem sigraði Selfoss 2:0 á útivelli í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í knattspyrnu. Breiðablik mætir Val í úrslitaleiknum.

„Þetta var baráttuleikur. Það er alltaf þannig þegar maður mætir á Selfoss, þær eru mjög líkamlega sterkar og maður þarf að mæta þeim í því ef maður ætlar að eiga einhvern séns á að vinna. Þannig að þetta var alveg eins og við bjuggumst við. Kannski opnari leikur en oft áður á milli þessara liða. Það er líka þannig í bikarleikjum að það er allt undir. Mér fannst við ná að opna þær frekar vel í fyrri hálfleik og ef við hefðum náð að nýta færin þá hefði þetta ekki verið svona mikið stress í lokin,“ sagði Agla María í samtali við mbl.is.

Varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir slakaði á stressinu hjá Blikum með því að skora annað markið í uppbótartímanum og það var stórglæsilegt.

„Það getur allt gerst í stöðunni 1:0, við höfum brennt okkur á því, og það slakaði mikið á okkur þegar Helena skoraði annað markið, þetta var rosalegt mark hjá henni. Hún hefur ekki spilað svo mikið í sumar þannig að það var gaman hjá henni að koma inná og setja hann,“ sagði Agla, en það var hún sjálf sem kom Blikum yfir í fyrri hálfleik þegar markvörður Selfoss hreinsaði boltann í hana.

„Þetta er með þeim fallegri sem ég hef skorað,“ sagði Agla og hló, „nei, hann var svolítið lengi yfir línuna og ég átti engan veginn von á því að hann færi inn, en ég tek því. Ég pota í boltann og er á ferðinni og næ ekkert að stoppa mig, ég er á undan í boltann og er ekki að reyna að keyra markmanninn niður,“ sagði Agla en Selfyssingar vildu fá dæmt brot á hana í markinu.

Breiðablik mætir Val á Laugardalsvellinum 27. ágúst í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Öglu líst vel á þetta verkefni.

„Þetta verður geggjað, skiptir engu máli hvaða liði við erum að fara að mæta, úrslitaleikurinn er alltaf hörkuleikur og dagurinn skemmtilegur. Frábært að vera komnar með farseðilinn þangað og bikarinn er ekkert á leiðinni úr Kópavoginum,“ sagði Agla María létt að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka