Seinna mark Blika sárabót í svekkelsinu

Björn Sigurbjörnsson
Björn Sigurbjörnsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Mér fannst þetta bara ótrúlega flottur leikur hjá okkur. Mér fannst við vera með Blikana í köðlunum lengst af þessum leik,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss eftir 2:0 tap gegn Breiðabliki í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

„Við erum að skapa okkur fínar opnanir og góð færi, við bjóðum þeim auðvitað upp á nokkra sénsa og gefum þeim mark, þar sem mér fannst mögulega brotið á markmanninum okkar, ég á eftir að skoða það, mér fannst hún hindruð í því að standa upp. Auðvitað er ég sár og svekktur yfir því að vera búinn í bikarnum, ég hefði viljað fara á Laugardalsvöll, en á sama tíma er ég ótrúlega stoltur yfir líklega okkar bestu frammistöðu í ár,“ sagði Björn í samtali við mbl.is.

Fyrsta mark Blika var skelfilegt fyrir Selfyssinga en Tiffany Sornpao hreinsaði boltann frá marki í Öglu Maríu Albertsdóttur og þaðan lak boltinn í netið. Seinna markið var hins vegar stórglæsilegt, en Helena Hálfdánardóttir negldi boltanum í skeytin inn í uppbótartímanum.

„Það er kannski einhver sárabót í svekkelsinu að hafa fengið þetta seinna mark á sig, ég veit það ekki. Ef við hefðum tapað eitt núll með skoti í skeytin inn þá hefði maður kannski tekið því. Hitt hefði verið sárara. Það sem gerir seinna mark Blika og dregur vindinn úr okkur er að við erum búnar að færa okkur framar á völlinn til að þrýsta á eftir jöfnunarmarki, skyndisókn Blika var afleiðing af því að við erum komnar með marga leikmenn hátt á völlinn. Við fengum betri færi í fyrri hálfleik og hefðum átt að skora,“ segir Björn en Selfyssingar hafa glímt við mikla markaþurrð í síðustu leikjum sínum í Bestu deildinni. 

„Við erum að vinna í ákveðnum þáttum í leik okkar, að komast aftur fyrir línu hjá andstæðingum og komast í fyrirgjafastöður. Við erum að bæta þetta og komast lengra í okkar leik. Nú fara mörkin að detta inn,“ segir Björn bjartsýnn og hann er ánægður með liðið sitt í dag.

„Já, mjög stoltur. Ótrúlega gaman að byrja með marga uppalda leikmenn í liðinu og setja uppalda leikmenn inná. Þóra [Jónsdóttir] var að byrja í fyrsta skipti í sumar eftir löng meiðsli og spilar frábærlega, þannig að ég er mjög stoltur af því sem við erum að gera hérna og það sem við erum að gera í félaginu og er búið að gera áður en ég kom hingað. Það er björt framtíð hjá mörgum af þessum stelpum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert