Tindastóll hafði betur gegn Víkingi úr Reykjavík í miklum markaleik á Sauðárkróki í 1.deild kvenna í fótbolta, Lengjudeildinni, í kvöld. Urðu lokatölur 5:4, Tindastóli í vil.
Tindastóll byrjaði af gríðarlegum krafti, því staðan var orðin 3:0 eftir 23 mínútur. Murielle Tiernan, Hugrún Pálsdóttir og Melissa Garcia höfðu þá allar komist á blað.
Bergdís Sveinsdóttir minnkaði muninn fyrir Víking á 27. mínútu en níu mínútum síðar kom Aldís María Jóhannsdóttir Skagfirðingum aftur í þriggja marka forystu, 4:1.
Hafdís Bara Höskuldsdóttir minnkaði muninn í 4:2 á 37. mínútu en Murielle Tiernan gerði annað markið sitt og fimmta mark Tindastóls á 44. mínútu.
Tveimur mörkum munaði hinsvegar í hálfleik því Kiley Norkus gerði síðasta mark hálfleiksins er hún minnkaði muninn í 5:3 á lokamínútunni.
Seinni hálfleikurinn var töluvert rólegri, því Christabel Oduro skoraði eina mark hans í uppbótartíma. Hún minnkaði þá muninn í 5:4, sem urðu lokatölur.
Tindastóll er nú með 31 stig, aðeins einu stigi á eftir HK sem er í öðru sæti. FH er á toppnum með 36 stig.