KA fékk ÍA í heimsókn í 17. umferð Bestu deildar karla í dag. Fyrir leik sat ÍA á botni deildarinnar en KA var á höttunum eftir 2. sætinu. Staða liðanna var því mjög ólík og KA-menn á fljúgandi ferð. Skagamenn höfðu tapað sex deildarleikjum í röð en það var ekki að sjá á þeim þar sem þeir mættu grimmir til leiks.
KA vann leikinn 3:0 en Skagamenn misstu mann af velli á 35. mínútu. KA komst lítt áleiðis en eftir að fyrsta mark leiksins kom á 68. mínútu þá var leikurinn í þeirra höndum.
Markalaust var í hálfleik en hvort lið fékk sín færi. Skagamenn fengu tvö kjörin færi í fyrri hluta fyrri hálfleiks og hefðu átt að skora. KA var þó mun meira með boltann en lítið bit var í sóknarleik þeirra. Hann var hægur og hugmyndasnauður og á köflum leit leikurinn mest út fyrir að vera létt æfing fyrir Árna Marinó Einarsson, markvörð ÍA, í að grípa fyrirgjafir. Sveinn Margeir Hauksson komst næst því að skora þegar hann skallaði boltann í stöngina.
Skagamenn urðu fyrir áfalli á 35. mínútu þegar Hlynur Sævar Jónsson fékk rautt spjald fyrir að keyra Hallgrím Mar niður, en KA-maðurinn var þá að sleppa í gegn við annan mann. Lítið breyttist við þessa brottvísun nema hvað barátta Skagamanna varð bara þeim mun meiri.
Seinni hálfleikurinn var algjör einstefna KA og en bitleysið í sóknum þeirra var átakanlegt. KA-leikmennirnir virtust hreinlega halda að mörkin ættu að koma að sjálfu sér. Skiptingar KA á 66. mínútu færðu mikinn kraft í leik þeirra og komu tvö mörk í kjölfarið. Fyrst skoraði Nökkvi Þeyr Þórisson með góðu skoti frá vítateig vinstra megin. Sendi hann boltann í bláhornið hægra megin eftir góða baráttu Jakobs Snæs Árnasonar inni á teig Skagamanna. Hallgrímur Mar Steingrímsson bætti svo við marki með góðu vinstrifótarskoti eftir sendingu frá Nökkva Þey.
Nökkvi Þeyr bætti svo við einu marki undir lokin og kom sér þar með í efsta sætið yfir markaskorara deildarinnar. Hann er nú kominn með 13 mörk í deildinni. Kom það eftir hraða sókn KA þar sem Steinþór Freyr Þorsteinsson komst á auðan sjó vinstra megin. Gaf hann boltann á Nökkva, sem átti hnitmiðað skot í fjærhornið. Má segja að markið hafi verið eftirprentun af fyrra marki hans. Nökkvi þeyr er nú orðinn markahæstur í deildinni en hann hefur skorað 13 mörk það sem af er.
KA sigldi öruggum 3:0 sigri heim og kom sér þar með í 2. sætið í bili. Fróðlegt verður að fylgjast með Víkingum glíma við Breiðablik á morgun í algjörum lykilleik í baráttunni um efstu sætin.