Lykilmaður HK viðbeinsbrotnaði

Birkir Valur Jónsson í leik með HK fyrr í sumar.
Birkir Valur Jónsson í leik með HK fyrr í sumar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Birkir Valur Jónsson, varnarmaðurinn öflugi í liði HK, viðbeinsbrotnaði og þurfti að fara af velli snemma leiks þegar liðið tapaði 0:2 gegn Þór á Akureyri í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í gærkvöldi.

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, staðfesti í samtali við Fótbolta.net eftir leik að Birkir Valur væri viðbeinsbrotinn, sem varð til þess að hann þurfti að fara af velli strax á 13. mínútu.

Talið er ólíklegt að Birkir Valur geti tekið frekari þátt á tímabilinu þar sem HK á fimm leiki eftir í deildinni.

Birkir Valur er þriðji lykilmaður HK sem liðið missir fyrir lokasprett Lengjudeildarinnar en Stefán Ingi Sigurðarson, markahæsti leikmaður þess á tímabilinu, er haldinn á brott til náms í Bandaríkjunum auk þess sem Valgeir Valgeirsson var seldur til Örebro í Svíþjóð.

HK er í efsta sæti Lengjudeildarinnar og stefnir þrátt fyrir tap gærkvöldsins hraðbyri upp í efstu deild, Bestu deildina, að nýju ásamt Fylki, sem á leik til góða og getur með sigri eða jafntefli í honum komist upp fyrir HK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert