Keflavík og KR gerðu markalaust jafntefli þegar liðin áttust við í 17. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Keflavík í kvöld. Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn góð skemmtun en inn vildi boltinn ekki.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð líflegur þó mörkin hafi látið á sér standa.
KR fékk betri færi í hálfleiknum en Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur varði nokkrum sinnum vel og í eitt skiptið stórkostlega, skot Stefáns Árna Geirssonar af stuttu færi eftir skyndisókn á tíundu mínútu.
Keflvíkingar áttu sömuleiðis sín færi og komst Joey Gibbs næst því að skora fyrir heimamenn með skalla á sjöundu mínútu en Beitir Ólafsson í marki KR varði vel frá honum.
Eftir markalausan fyrri hálfleik hertu KR-ingar tökin í síðari hálfleik og réðu lögum og lofum fyrri hluta hans.
Snemma í hálfleiknum átti Hallur Hansson skalla af stuttu færi eftir frábæran sprett og fyrirgjöf Þorsteins Más Ragnarssonar, sem lék í vinstri bakverði í fjarveru Arons Kristófers Lárussonar og Kristins Jónssonar og leysti það verkefni með sóma.
Nacho Heras bjargaði svo í tvígang á marklínu eftir skot Atla Sigurjónssonar og Arons Þórðar Albertssonar í sömu sókn .
Þegar tæplega stundarfjórðungur lifði leiks tóku heimamenn í Keflavík leikinn yfir og settu KR-inga undir mikla pressu.
Besta færið fékk Sindri Þór Guðmundsson á 86. mínútu þegar hann slapp einn gegn Beiti eftir laglega sókn en skot hans af örstuttu færi beint í andlitið á markverðinum.
Hvað sem liðin reyndu tókst því hvorugu að skora og markalaust jafntefli því niðurstaðan.
KR er því áfram í 6. sæti og Keflavík er áfram í 7. sæti.