Ari Sigurpálsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, var ekki sáttur við spilamennsku liðsins í fyrri hálfleiknum í 1:1-jafnteflinu á móti Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Blikar fóru með 1:0 forskot inn í hálfleikinn en Víkingur jafnaði í seinni hálfleik.
„Þetta var mjög lélegur leikur. Fyrri hálfleikurinn var einn sá versti sem ég hef spilað með Víkingum í sumar. Við byrjuðum ágætlega í seinni hálfleik, náðum jöfnunarmarkinu en við hefðum átt að finna fleiri einn á einn stöður, eins og markið kom upp úr,“ sagði hann og hélt áfram:
„Vinnusemin var ekki eins og venjulega. Ég er þreyttur og við erum allir þreyttir. Einbeitingin var ekki nógu góð og við komum ekki rétt stilltir inn í leikinn. Við vorum hræddir og ekki nógu hugrakkir á boltanum. Það lagaðist í seinni hálfleik.“
Leikurinn var sá fyrsti hjá Víkingum eftir ferðalag til Póllands, þar sem liðið tapaði fyrir Lech Poznan í 3. umferð Sambandsdeildarinnar eftir framlengingu. Hann viðurkennir að sá leikur hafi setið í leikmönnum Víkings.
„Hann sagði okkur að rífa okkur upp, sem var hárrétt hjá honum. Við þurfum að vera hugrakkir og byrja að spila okkar bolta. Þessi leikur kom kannski ekki á besta tíma. Bæði lið þreytt og við vorum í löngu og erfiðu ferðalagi, þar sem við spiluðum 120 mínútur á móti geggjuðu liði. Þetta var ekki besti tíminn fyrir svona stórleik, en við mætumst aftur í úrslitakeppninni.“
Ari átti stóran þátt í marki Víkings en Danijel Dejan Djuric skoraði eftir að Ari lék á Höskuld Gunnlaugsson og skaut í stöng.
„Þetta var svipað og markið hjá Eggerti í Stjörnunni á móti Breiðabliki í leiknum á undan. Höskuldur var ekkert að koma út í mig, svo fjærhornið var opið. Því miður fór boltinn ekki inn en það var gott að Danni var vel staðsettur og setti hann inn. Vonandi verður þetta skráð sem stoðsending á mig,“ sagði Ari.