Selfoss sigraði Þór/KA næsta örugglega í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á Selfossi í kvöld. Lokatölur urðu 2:0 og langvarandi markaþurrð þeirra vínrauðu því á enda.
Brenna Lovera kom Selfyssingum yfir strax á 6. mínútu en þetta var fyrsta mark Selfoss í 489 mínútur í Bestu deildinni. Selfoss skoraði síðast mark þann 1. júní í sigri á KR.
Annars var fyrri hálfleikurinn engin flugeldasýning. Selfoss var meira með boltann en þegar leið á fyrri hálfleikinn færðu Norðankonur sig framar án þess þó að skapa neitt að ráði.
Staðan var 1:0 í hálfleik og Selfyssingar höfðu leikinn í nokkuð öruggum höndum í seinni hálfleiknum. Þór/KA átti fínar sóknir en gekk illa að tengja inni á síðasta þriðjungi vallarins. Sandra María Jessen og Hulda Ósk Jónsdóttir voru sprækar en voru ekki í markaskónum.
Mikil meiðsli hafa hrjáð Selfyssinga síðustu vikurnar, sérstaklega á miðsvæðinu, og því hefur innkoma Þóru Jónsdóttur á miðjuna eftir erfið meiðsli verið sannkölluð himnasending. Hin 16 ára gamla Jóhanna Elín Halldórsdóttir stóð sig líka vel á miðjunni í sínum fyrsta byrjunarliðsleik.
Það er aldrei auðvelt að vera í stöðunni 1:0 á móti liði eins og Þór/KA sem getur alltaf refsað með marki. Selfyssingar fögnuðu því vel á 78. mínútu þegar Susanna Friedrichs skoraði glæsilegt mark á 78. mínútu eftir laglegan samleik við Miröndu Nild.
Úrslit kvöldsins þýða það að Selfyssingar sigla lygnan sjó um miðja deild en útlitið er svart hjá Þór/KA. Nái Afturelding í stig gegn Keflavík í kvöld eru Norðankonur komnar í fallsæti.