Þróttur vann góðan 5:1 sigur á liði ÍBV í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld.
Það voru leikmenn ÍBV sem byrjuðu betur í Laugardalnum í kvöld en það voru samt leikmenn Þróttar sem skoruðu fyrsta markið. Þar var á ferðinni Andrea Rut Bjarnadóttir en hún kom Þrótti yfir strax á 11. mínútu leiksins en hún fékk þá frábæra sendingu frá Ólöfu Sigríði Kristinsdóttur inn fyrir vörn ÍBV og kláraði þetta vel og boltinn söng í netinu. Leikmenn ÍBV létu þetta ekki trufla sig þvi þær náðu að jafna metin aðeins sjö mínútum síðar. Þá átti Olga Sevcova virkilega góða sendingu inn fyrir vörn Þróttar og þar kom á ferðinni Sandra Voitane sem átti ekki í miklum vandræðum að setja boltann í netið og jafna metin.
Næstu mínútur skiptust liðin á að sækja en lið Þróttar var þó að skapa sér hættulegri tækifæri. Það kom því ekki á óvart þegar Þróttur komst yfir á 35. mínútu en þá átti Katla Tryggvadóttir frábæra sendingu á Danielle Marcano sem fór fram hjá Auði í marki ÍBV og renndi boltanum í markið. Á lokamínútu hálfleiksins skoraði svo Danielle Marcano aftur en þá fékk hún mjög góða sendingu frá Ólöfu Sigríði sem brunaði upp hægri kantinn af miklu harðfylgi og kom boltanum fyrir þar sem Danielle tók boltann niður og setti hann í markið. Strax eftir markið var flautað til hálfleiks.
Leikmenn Þróttar byrjuðu seinni hálfleikinn vel og fengu hornspyrnu eftir tæplega eina mínútu en leikmenn ÍBV náðu að koma boltanum frá í það skiptið. Fyrsta alvöru færið í seinni hálfleik fékk svo ÍBV en þá tók Haley Thomas aukaspyrnu á miðju vallarins og Madison Wolfbauer náði að flikka boltanum áfram inn á teig og þar var Ameera Hussen í góðu færi en hittir hreinlega ekki boltann.
Á 67. mínútu leiksins var komið að því að Ólöf Sigríður skoraði en hún var klárlega besti maður vallarins í Laugardalnum í kvöld. Ólöf fékk þá virkilega góða sendingu frá Kötlu frá vinstri kantinum og Ólöf skallaði boltann í netið. Aðeins þremur mínútum síðar skoraði svo Freyja Karín Þorvarðardóttir fimmta mark Þróttar en þá fylgdi hún á eftir skoti Ólafar sem hafnaði í stönginni en Freyja var þarna nýkomin inn á sem varamaður fyrir Danielle Marcano.
Sem sagt virkilega öflugur sigur Þróttara í Laugardalnum í kvöld. Liðið er komið í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig en Stjarnan er svo í fjórða sæti deildarinnar með 24 stig. ÍBV er í fimmta sætinu með 21 stig. Næsti leikur Þróttar er gegn Þór/KA á Ákureyri næsta þriðjudag en það er búið að fresta leik ÍBV og Breiðabliks sem átti að fara fram í næstu viku þar sem Valur og Breiðablik mætast í úrslitum bikarsins laugardaginn 27. ágúst.