Alltaf gaman að koma heim í Víkina

Sigurður Egill Lárusson í Víkinni í kvöld.
Sigurður Egill Lárusson í Víkinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Tilfinningin er ágæt,“ sagði Sigurður Egill Lárusson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli gegn uppeldisfélaginu Víkingi úr Reykjavík í Bestu deildinni í fótbolta. Víkingur komst í 2:0 en Valsmönnum tókst að jafna og ná í eitt stig.

„Það var mjög sterkt að koma til baka og við sýndum fullt af karakter. Þessi leikur gat dottið hvoru megin sem var. Ætli jafntefli séu ekki sanngjörn úrslit,“ sagði Sigurður.

Valsmenn fengu nokkuð afar góð færi, áður en Víkingur komst yfir nokkuð gegn gangi leiksins. „Við áttum skot í stöng og Guðmundur Andri slapp einn í gegn. Það hefði verið gaman að komast yfir en við þurftum að elta og við gerðum það vel og skorum tvö fín mörk.“

Eftir að Ólafur Jóhannesson tók við Valsliðinu af Heimi Guðjónssyni hefur Sigurður Egill leikið sem vinstri bakvörður, en hann hefur leikið sem kantmaður í gegnum ferilinn. Hann kann vel við sig í stöðunni, þótt hann þurfi að aðlagast henni betur.

„Ég er að fíla mig mjög vel. Ég þarf aðeins að slípa varnarleikinn í þessari stöðu en ég er virkur í sóknarleiknum og það er mjög gaman. Við erum sókndjarft lið og höldum mikið í boltann. Ég er að fíla mig mjög vel, en ég þarf aðeins að laga varnarleikinn.“

Sigurður Egill var utan hóps framan af á leiktíðinni og var orðaður við brottför frá Val. Hann hefur hinsvegar verið fastamaður í byrjunarliðinu eftir að Ólafur tók við.

„Þetta byrjaði svolítið þungt og ég var uppi í stúku í byrjun tímabils en svo náði ég aðeins að vinna mér inn sæti í liðinu og var inni og úti til skiptis. Eftir að Óli kom inn hef ég spilað allar mínútur og eins og staðan er núna er ég virkilega ánægður. Ég get alveg séð þessa stöðu til frambúðar. Bakvarðarstaðan í dag snýst mikið um sóknarleik og ég get alveg séð mig halda áfram í þessari stöðu,“ sagði hann.

Þótt Sigurður hafi leikið með Val í áraraðir, kann hann vel við að heimsækja heimaslóðir. „Það er geggjað að koma heim. Hér líður mér vel og það er alltaf gaman að koma heim í Víkina,“ sagði Sigurður Egill.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka