Barátta, hugur og vilji sem skópu sigurinn

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, á leik fyrr í sumar.
Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, á leik fyrr í sumar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, var að vonum ánægður með frammistöðu liðs síns, en þeir unnu 4:3 heimasigur á KR-ingum á Leiknisvelli í Bestu deild karla í kvöld. „Það var ofboðslega góð barátta, hugur og vilji sem skóp þennan sigur, “ segir Sigurður sem sagðist vera virkilega stoltur af liðinu sínu.

Sigurður segir að hugarfarið og krafturinn í kvöld hafi gert það að verkum að sigurinn náðist í kvöld. „Við höfðum aðeins saknað þess og grófum djúpt eftir því, en þetta var þarna og er þarna og við munum byggja ofan á þetta,“ segir Sigurður. „Það er mjög kærkomið að fá svona heilsteypta frammistöðu hugarfarslega.“

Sigurður segir aðspurður að hann sé mjög ánægður með framlag Zeans Delügge í kvöld, en hann var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins í kvöld. „Já, hann er nautsterkur og einhvern veginn alltaf að hugsa um að hlaupa á markið. Það er ofboðslega gaman að fylgjast með honum.“

Sigurður segir að sigurinn færi liði sínu sérstaklega mikið, en fyrir leikinn höfðu Leiknismenn tapað fjórum leikjum í röð. „Og að koma núna og vinna KR á heimavelli er virkilega stórt fyrir þetta félag. Við erum með eitt markmið, það er þráhyggja hjá okkur að halda þessu liði uppi og gera það á þann hátt að Leiknishjartað skíni og við séum jafn vel stilltir og við vorum í dag,“ segir Sigurður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert