Leiknismenn unnu frækinn heimasigur á KR-ingum, 4:3, í Bestu deild karla í kvöld. Lokamínútur leiksins voru einkar spennuþrungnar, en KR-ingar náðu að jafna þegar örfáar mínútur voru til leiksloka.
Leikurinn hófst af miklu krafti og var augljóst frá fyrstu mínútu að hvorugt liðið myndi sætta sig við eitt stig. Var ljóst að leikaðferð heimamanna væri sú að vera með þéttan og vel skipulagðan varnarleik og sækja svo hratt fram með aðstoð þeirra Mikkels Dahl og Zean Dalügge í fremstu víglínu.
Á 11. mínútu dróg til tíðinda, en þá fengu Leiknismenn ágæta sókn upp vinstri kantinn, en þaðan barst boltinn til Daða Bærings Hreinssonar utan teigs. Hann tók eina snertingu og skaut svo fremur lausu skoti, en Beitir markvörður KR-inga sá boltann seint og náði ekki að bregðast við.
KR-ingar voru heldur aðgangsharðari en Leiknismenn eftir markið, og fengu gestirnir nokkur fín færi til þess að jafna metin. Heimamenn létu þó alls ekki sundurspila, og á 28. mínútu munaði minnstu að Mikkel Dahl gæti tvöfaldað forystuna þegar hann fékk boltann einn á vallarhelmingi KR-inga, þar sem Beitir var kominn langt út úr vítateig. Dahl náði hins vegar ekki að stýra boltanum í netið.
Gestirnir náðu hins vegar að brjóta ísinn á 41. mínútu, en þá barst boltinn til Stefáns Árna Geirssonar eftir hornspyrnu. Hann skaut góðu skoti á markið sem Brynjólfur Hlöðversson, miðvörður Leiknis, hreinsaði, en fyrir gráglettni örlaganna endaði knötturinn hjá Viktori Frey, markverði Leiknis, sem sló hann í Bjarka Aðalsteinsson, fyrirliða Leiknis, og endaði boltinn þar í netinu hjá Breiðhyltingum.
Líklega voru bæði lið farin að búa sig undir að fara til búningsherbergja með stöðuna 1:1, þegar Leiknismenn fengu óvænta skyndisókn í uppbótartíma. Mikkel Dahl komst þar aftur fyrir Aron Kristófer Lárusson, bakvörð KR-inga og gaf boltann á Zean, en Beitir varði skot hans í stöngina. Það fór hins vegar ekki betur en svo að boltinn fór þaðan í Arnór Svein Aðalsteinsson, fyrirliða KR, sem reyndi að hreinsa boltann, en náði því ekki áður en hann fór yfir línuna. Staðan var því 2:1 í leikhléi, og báðir fyrirliðar liðanna búnir að skora sitt sjálfsmarkið hvor.
Leiknismönnum hefði eflaust verið fyrirgefið það, miðað við stöðuna í deildinni, hefðu þeir ákveðið að reyna að halda seinni hálfleikinn út með eins marks forystu. Það gerðu þeir hins vegar ekki, og fengu þeir nokkur færi á upphafsmínútum seinni hálfleiks til þess að auka forystuna. Atli Sigurjónsson og Stefán Árni Geirsson fengu hins vegar bestu færin fyrir KR-inga til þess að jafna, en skot Atla á 54. mínútu fór í stöngina og mínútu síðar skaut Stefán Árni rétt framhjá. Þá var Bjarki Aðalsteinsson nærri því búinn að skora annað sjálfsmark, en glæsilegur skalli hans endaði í þverslánni.
Kristinn Jónsson, bakvörðurinn þrautreyndi, kom inn á fyrir KR-inga á 62. mínútu, en hann hefur verið lengi frá vegna meiðsla. Fall er fararheill kynni einhver að segja, því á 65. mínútu felldi Kristinn Zean Delügge í teignum og vítaspyrna raunin. Hana tók Emil Berger af fádæma öryggi í hægra hornið niðri, og heimamenn allt í einu komnir með tveggja marka forystu.
KR-ingar lögðu hins vegar ekki árar í bát og reyndu hvað þeir gátu til þess að minnka muninn. Sóknarleikur þeirra var hins vegar oft á tíðum full einhæfur, þar sem þrír miðverðir Leiknismanna skölluðu hverja fyrirgjöfina á fætur annarri frá. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, ákvað því að gera tvöfalda skiptingu, og setti inn þá Stefán Ljubicic og Kjartan Henry Finnbogason á 79. mínútu.
Skiptingar Rúnars báru ávöxt strax á 82. mínútu, en þá var Kristinn Jónsson felldur í teig Leiknismanna. Kjartan Henry steig á punktinn og skaut föstu og óverjandi skoti í hornið niðri vinstra megin. Þremur mínútum síðar fékk Kristinn Jónsson endanlega uppreist æru fyrir að hafa gefið vítið, en þá veiddi hann frákastið eftir skot Kristjáns Flóka Finnbogasonar, stormaði upp vinstri kantinn sem svo oft áður, og skoraði úr mjög þröngu færi.
Nú voru fimm mínútur til leiksloka og eflaust farið að fara um margan Leiknismanninn í stúkunni, þar sem KR-ingar leituðu ákaft að sigurmarkinu. Sá ákafi varð þeim hins vegar að falli, því að á 88. mínútu misstu þeir boltann á vondum stað og fengu skyndisókn í andlitið, þar sem Zean Delügge var réttur maður á réttum stað. Komst hann einn gegn Beiti markverði og svoleiðis þrumaði boltanum af miklu öryggi upp í þaknetið.
Þrátt fyrir að KR-ingar sæktu án afláts það sem eftir lifði uppbótartíma náðu þeir ekki að koma boltanum í netið fjórða sinni, og var því fyrsti sigur Leiknismanna á KR í alvöru keppnisleik að veruleika.
Leikurinn var spennandi og stórskemmtilegur á að horfa fyrir hinn hlutlausa áhorfanda, sér í lagi á lokamínútunum. Hefðu úrslitin getað fallið á hvern veginn sem er, og hefði það til dæmis ekkert verið óeðlilegt ef KR-ingar hefðu náð sigurmarkinu á lokametrunum frekar en Leiknismenn. Heimamenn unnu sér hins vegar inn fyrir sigrinum með góðu skipulagi og þrotlausri baráttu sem skilaði þeim stigunum þremur í hús.
Fyrir KR-inga er hins vegar sárgrætilegt að enda annan leikinn í röð, á eftir tapinu gegn Víkingum í bikarnum, með ekkert í höndunum eftir að þeir náðu að vinna sig aftur inn í leikinn og jafna í 3:3. Þá líkt og nú fengu KR-ingar tækifæri til þess að tryggja sér sigur, en það er til lítils ef þau eru ekki nýtt.
Leiknir er eftir þennan sigur enn í næstneðsta sæti, nú með þrettán stig, en sigurinn mun eflaust gefa þeim byr í þeirri hörðu fallbaráttu sem framundan er. KR heldur í sjötta sætið með 25 stig, þremur stigum á undan Frömurum, sem eiga leik til góða.