Einum sigri frá efstu deild

Mathias Laursen fór mikinn fyrir Árbæinga í kvöld.
Mathias Laursen fór mikinn fyrir Árbæinga í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylkir þarf einn sigur í viðbót í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, til þess að tryggja sér sæti í efstu deild, Bestu deildinni, að ári.

Fylkismenn unnu 2:0-sigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi í toppslag deildarinnar í kvöld í 18. umferð þar sem Mathias Laursen skoraði bæði mörk Árbæinga í síðari hálfleik.

Fylkir er með 42 stig í efsta sætinu og hefur fimm stiga forskot á HK sem er í öðru sætinu með 37 stig.

Þá munar 11 stigum á Gróttu og Fylki en Grótta, sem er með 31 stig í þriðja sætinu, vann 1:0-sigur gegn Þór frá Akureyri á Vivaldivellinum á Seltjarnarnesi þar sem sjálfsmark norðanmanna á 34. mínútu réð úrslitum. 

Javier Ontiveros skoraði þrennu fyrir Aftureldingu þegar liðið vann öruggan 4:0-sigur gegn Þrótti úr Vogum en Þróttarar eru fallnir úr deildinni eftir úrslit kvöldsins. Afturelding er með 28 stig í fimmta sætinu og á enn veika von um að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka