Selfoss vann 2:0 sigur á Keflavík í 14. umferð Bestu deildar kvenna á HS Orku vellinum í Keflavík í dag.
Með sigrinum færir Selfoss sig upp í fimmta sæti með jafnmörg stig og ÍBV en betri markatölu. Keflavík er áfram í sjöunda sæti með 13 stig.
Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins þriggja mínútna leik. Þá fékk Bergrós Ásgeirsdóttir allan tímann í heiminum til að gefa háan bolta fyrir. Það gerði hún, boltinn rataði á kollinn á Brenna Lovera sem skallaði hann laglega yfir Samönthu Leshnak í marki Keflavíkur og kom Selfossi í 1:0.
Selfoss stjórnaði að mestu fyrri hálfleiknum en skapaði sér fá afgerandi marktækifæri. Keflavík náði nokkrum góðum upphlaupum en fátt var um færi og hálfleikstölur því 1:0, Selfossi í vil.
Íris Una Þórðardóttir tvöfaldaði svo forystu Selfoss á 59. mínútu er hún fylgdi eftir skalla tvíburasystur sinnar Kötlu Maríu Þórðardóttur og stýrði boltanum í netið, 2:0 og útlitið orðið ansi gott fyrir Selfoss.
Selfoss hélt áfram að hafa öll tök á leiknum og Miranda Nild kom sér í mörg færi til að bæta þriðja markinu við. Á sama tíma skapaði Keflavík sér varla færi og lokatölur urðu því 2:0, Selfossi í vil.
Keflavík fer í heimsókn í Laugardaginn og mætir Þrótti úr Reykjavík í næsta leik sínum. Selfoss fær Stjörnuna í heimsókn í næsta leik sínum.