FH í efstu deild eftir tap HK – Fjölnir fallinn

Það var hart tekist á í Kópavoginum í kvöld.
Það var hart tekist á í Kópavoginum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH leikur í efstu deild kvenna í knattspyrnu, Bestu deildinni, á næstu leiktíð eftir ósigur HK gegn Víkingi úr Reykjavík í 1. deild kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, í Kórnum í Kópavogi í 16. umferð deildarinnar í kvöld.

Arna Sól Sævarsdóttir kom HK yfir strax á 2. mínútu en Hafdís Bára Höskuldsdóttir og Christel Oduru skoruðu sitt hvort markið fyrir Víking og lokatölur því 2:1 í Kópavoginum.

Víkingur er með 39 stig í fjórða sætinu en HK er með 33 stig í þriðja sæti deildarinnar. FH er með 40 stig og HK getur því ekki náð FH að stigum.

Vonir HK um að leika í efstu deild eru þó ekki úr sögunni því liðið getur ennþá náð Tindastóli  sem er með 37 stig í öðru sætinu eftir 5:0-stórsigur gegn Fjölni á Sauðárkróki.

Murielle Tiernan skoraði tvívegis fyrir Tindastól og þær María Dögg Jóhannesdóttir, Bryndís Rut Haraldsdóttir og Aldís María Jóhannsdóttir sitt markið hver en úrslitin þýða að Fjölnir er fallinn úr deildinni.

Þá gerðu Fylkir og Augnablik 1:1-jafntefli á Würth-vellinum í Árbænum þar sem Sigrún Guðmundsdóttir skoraði mark Augnabliks en liðið varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 51. mínútu og niðurstaðan því jafntefli. 

Fylkir er með 17 stig í sjötta sætinu en Augnablik er í því áttunda með 13 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert