„Þetta er gríðarlega spennandi og leggst vel í okkur. Þetta er auðvitað leikur sem allir vilja komast í, stærsti leikur ársins á hverju tímabili,“ sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks í knattspyrnu kvenna, um bikarúrslitaleik liðsins gegn Val, í samtali við mbl.is.
Úrslitaleikurinn í Mjólkurbikarnum fer fram á Laugardalsvelli á morgun klukkan 16.
Breiðablik er ríkjandi bikarmeistari eftir að hafa haft betur gegn Þrótti úr Reykjavík í úrslitaleiknum á síðasta tímabili. Valur er þá ríkjandi Íslandsmeistari og á toppi Bestu deildarinnar.
Ásmundur sagðist ekki finna fyrir aukinni pressu fyrir leik morgundagsins þó Blikar eigi titil að verja.
„Ég held að það sé álíka pressa á bæði lið sama hvort þú sért ríkjandi bikarmeistari eða ríkjandi Íslandsmeistari. Það vilja bara allir vinna þennan bikar. Þetta er einn leikur og það getur allt gerst.
Ég held að Valur sé klárlega, miðað við stöðuna í deild og hvað leikmannahópinn varðar, líklegri aðilinn en það gildir einu í svona leik og það mæta allir í svona leik til þess að vinna hann. Það verður bara okkar hugarfar.“
Nokkrir lykilmanna Breiðabliks eru meiddir og verða ekki með í leiknum á morgun. Vængmaðurinn skæði, Agla María Albertsdóttir, meiddist á dögunum og áður höfðu Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði og Telma Ívarsdóttir markvörður einnig meiðst.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er þá farin aftur til náms í Harvard-háskóla í Bandaríkjunum og Hafrún Rakel Halldórsdóttir meiddist illa í fyrsta deildarleik tímabilsins og hefur ekkert leikið síðan.
„Að öðru leyti er staðan fín,“ sagði hann. „Það eru auðvitað búnar að vera hrókeringar hjá okkur í allt sumar eins og alþjóð veit. Við verðum allavega með ellefu leikmenn inni á vellinum og nógu margar í hóp. Staðan á þeim er bara fín, tilhlökkun og spenningur fyrir verkefninu.“
Bæði Telma og Hafrún Rakel voru í leikmannahópnum í leikjum Breiðabliks í undankeppni Meistaradeildar Evrópu á dögunum en þær eru þó ennþá meiddar.
„Hafrún og Telma voru skráðar í Meistaradeildarhópinn, við vorum ekki með fleiri en 18 leikmenn og þær fengu því að fljóta með,“ útskýrði Ásmundur.
Athygli hefur vakið að Rakel Hönnudóttir, fyrrverandi landsliðskona, hefur verið varamarkvörður hjá Blikum að undanförnu vegna meiðsla Telmu. Hún lagði skóna á hilluna á síðasta ári og lék síðast með liðinu sumarið 2020.
„Við höfum verið með Rakel sem varamarkvörð undanfarið. Rakel er alltaf til taks í allt, hún getur leyst allar stöður,“ sagði hann.
Spurður hvort það kæmi til greina að hún spili eitthvað sem útileikmaður á tímabilinu sagði Ásmundur að lokum: Hún er alveg að æfa hjá okkur og eins og ég segi getur hún leyst allar stöður, þannig að maður veit aldrei.“