Gamla ljósmyndin: Varnarveggur

Morgunblaðið/Þorkell Þorkelsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Gervigras var ekki ýkja þekkt fyrirbæri í knattspyrnunni á Íslandi þar til gervigras var lagt í Laugardal og vígt árið 1985. Var það fyrsti gervigrasvöllurinn á Íslandi og var keppnisvöllur um tíma hjá meistaraflokksliðum. 

Meðfylgjandi mynd er frá leik Víkings R. og KA í næstefstu deild karla í knattspyrnu í júlí árið 1986. KA á óbeina aukaspyrnu og líklega er það Bjarni Jónsson sem spyrnir.

Víkingar raða sér allir fyrir framan eigið mark og mynda þar myndarlegan varnarvegg í þeirri von um að verjast marki. Spyrnan skilaði ekki marki en Bjarni skoraði þó eina mark leiksins með skalla í 1:0 sigri KA. 

KA hafnaði í 2. sæti í deildinni árið 1986 á eftir Völsungi og fór því upp í efstu deild. Þremur árum síðar varð liðið Íslandsmeistari. Leikurinn hafði talsverða þýðingu því Víkingur hafnaði í 3. sæti í deildinni. Víkingur varð Íslandsmeistari fimm árum síðar eða 1991. 

Myndina tók Þorkell Þorkelsson sem myndaði lengi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Birtist hún í íþróttablaði Morgunblaðsins hinn 5. júlí 1986. 

KA og Víkingur R. mætast á Akureyri á morgun klukkan 16 á Íslandsmótinu. Segja má að öllu meira sé undir heldur en árið 1986 en liðin eru nú í 2. og 3. sæti í efstu deild karla. KA í 2. sæti og Íslandsmeistararnir í Víkingi í 3. sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert