„Mér líður ótrúlega vel. Þessi tilfinning er ólýsanleg,“ sagði Ásdís Karen Halldórsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins á Breiðabliki í bikarúrslitum í fótbolta í kvöld.
Ásdís skoraði sigurmark Vals á 73. mínútu, en Breiðablik var marki yfir í hálfleik. „Ég veit ekki hvað það var í fyrri hálfleik, kannski smá stress. Í seinni hálfleik var hrollurinn farinn úr okkur og við börðumst eins og ljón. Það skóp þennan sigur.
Ég man ekkert rosalega vel eftir þessu marki, en þetta var geggjað held ég,“ sagði hún létt. „Maður hefur hugsað um þetta augnablik nokkrum sinnum. Það er geggjað að fá að upplifa þetta, en þetta var fyrst og fremst öflugur liðssigur. Við börðumst allar fyrir hvora aðra.“
Ásdís var í KR-liðinu sem fór í bikarúrslit árið 2019 en missti af úrslitaleiknum, þar sem hún hélt til Bandaríkjanna í nám. „Þá var ég í Bandaríkjunum og missti af úrslitum, svo ég varð að nýta tækifærið,“ sagði hún.
Ásdís var í vikunni kölluð inn í A-landslið Íslands fyrir leikina gegn Hvíta-Rússlandi og Hollandi í undankeppni HM. „Það er rosalega mikill heiður og framhaldið er spennandi. Auðvitað vonast maður alltaf eftir kalli í landsliðið og ég er ótrúlega ánægð með að hafa fengið það,“ sagði Ásdís Karen.