„Mér líður ótrúlega vel. Það var þvílíkt góð tilfinning þegar hann flautaði loksins leikinn af. Við erum agalega glaðar,“ sagði Arna Sif Ásgrímsdóttir, varnarmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins á Breiðabliki í úrslitum Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli í dag.
Breiðablik var með 1:0-forskot í hálfleik en Valskonur voru sterkari í seinni hálfleik og sneru taflinu við.
„Við áttum gott spjall í hálfleik. Ég veit ekki hvort það var eitthvað stress eða hvað það var í fyrri, við vorum ekki að gera það sem við erum góðar í. Það var ekkert að frétta í fyrri hálfleik en í seinni fundum við það sem við erum góðar í og nutum þess að spila, eins og þetta væri hver annar leikur,“ útskýrði hún og segir sigurinn verðskuldaðan.
„Við vorum miklu betri í seinni hálfleik. Pressan okkar var mjög góð og þær áttu erfitt með að spila frá marki og við náðum að ýta þeim neðarlega. Mér fannst þetta mjög verðskuldaður sigur.“
Arna hefur fagnað mörgum áföngum upp á síðkastið í fótboltanum. Hún var nýlega kölluð inn í landsliðið, er á toppnum á deildinni, áfram í Meistaradeildinni og svo nú bikarmeistari.
„Það er yndislegt þetta líf og ég er mjög hamingjusöm. Það er búið að vera mikið í gangi með mínu liði; Meistaradeildin, undirbúningur fyrir þennan leik og svo endaspretturinn í deildinni, þannig ég hef ekkert pælt í því. Þetta kom skemmtilega á óvart,“ sagði Arna Sif.