Þróttur úr Reykjavík leikur nær örugglega í 1. deild karla í knattspyrnu á næstu leiktíð eftir 3:1-sigur gegn KFA á Reyðarfirði í 19. umferð deildarinnar í dag.
Guðmundur Axel Hilmarsson skoraði tvívegis fyrir Þrótt og þá urðu Austfirðingar fyrir því óláni að skora sjálfsmark en Abdul Mansaray skoraði eina mark KFA.
Þróttur er með 42 stig í öðru sætinu og getur Völsungur, sem er í þriðja sætinu, ekki náð Þrótturum að stigum. Ægir er með 30 stig en á leik til góða og gæti því enn farið upp með því að vinna síðustu fjóra leiki sína, ef Þróttur tapar sínum leikjum. KFA er með 18 stig í tíunda sætinu og í vaxandi fallhættu eftir tapið.
Alberto Medel reyndist hetja Hattar/Hugins þegar liðið heimsótti Völsung á Húsavík en hann skoraði sigurmark leiksins á 31. mínútu í 1:0-sigri Hattar/Hugins sem er með 27 stig í fimmta sætinu.
Þá vann Reynir úr Sandgerði 2:0-sigur gegn Magna í Sandgerði þar sem Magnús Magnússon og Elton Barros skoruðu mörk Reynis.
Reynir er með 14 stig í ellefta sætinu og Magni í því tólfta með 10 stig en bæði lið eiga ennþá möguleika á því að bjarga sér frá falli. Staða Magna er hinsvegar orðin afar erfið.
Þá gerðu Víkingur úr Ólafsvík og KF 3:3-jafntefli í Ólafsvík þar sem þeir Mikael Hrafn Helgason, Mitchell Reece og Luis Romero skoruðu mörk Víkings en Cameron Botes, Julio Cesar skoruðu mörk KF en leikmaður Víkinga varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.
KF er með 20 stig í áttunda sætinu og Víkingar eru með 19 stig í níunda sætinu.