Valur bikarmeistari í 14. sinn

Valskonur fagna vel og innilega í leikslok.
Valskonur fagna vel og innilega í leikslok. mbl.is/Óttar

Valur varð í dag bikarmeistari kvenna í fótbolta í 14. sinn eftir 2:1-sigur á Breiðabliki í bikarúrslitum á Laugardalsvelli. Er Hlíðarendafélagið því aftur eitt sigursælast í keppninni en Breiðablik er með 13 sigra eftir sigurinn á síðasta ári.

Liðin gáfu afar fá færi á sér í fyrri hálfleik og voru varnir beggja liða sterkari en sóknirnar stærstan hluta hálfleiksins. Blikar lokuðu á allt sem Valskonur reyndu á meðan það reyndi lítið á Söndru Sigurðardóttur í marki Vals.

Það breyttist þó á 35. mínútu þegar Birta Georgsdóttir slapp í gegn eftir sókn upp hægri kantinn og undirbúning hjá Vigdísi Lilju Þorsteinsdóttur. Sandra varði frá Birtu en Blikakonan fylgdi á eftir og skoraði með góðri afgreiðslu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og var staðan í leikhléi því 1:0, Breiðabliki. í vil.

Valur byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og sótti nánast án afláts frá upphafi. Það skilaði jöfnunarmarki á 54. mínútu þegar Cyera Hintezen slapp inn fyrir vörn Breiðabliks eftir sendingu frá Þórdísi Hrönn Sigfúsdóttur og skoraði. Hintzen lék skemmtilega á Evu Persson í marki Breiðabliks og skoraði af öryggi.

Sókn Valskvenna jókst eftir markið og virtist aðeins tímaspursmál hvenær Valsliðið kæmist yfir. Gerðist það loks á 73. mínútu þegar Þórdís Hrönn átti aðra glæsilega sendingu inn fyrir, nú á Ásdísi Karen Halldórsdóttur sem kláraði vel framhjá Evu.

Breiðablik náði ekki að skapa sér mjög hættulegt færi eftir það og reyndist mark Ásdísar, sem er nýliði í landsliðinu sem mætir Hvíta-Rússlandi og Hollandi í næsta mánuði, því sigurmarkið. 

Breiðablik 1:2 Valur opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert