Keflvíkingar og Skagamenn leiddu saman hesta sína í 19. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Liðin hafa löngum eldað grátt silfur saman og enn virðist í fersku minni Keflvíkinga miðjuskot Bjarna Guðjónssonar hér um árið, í það minnsta heyrðist umræða um atvikið í stúkunni.
Hvað um það, þá eru liðin að berjast, hvort í sínum hluta deildarinnar. Skagamenn að slást við fallið á meðan Keflvíkingar sjá glitta í mögulegt Evrópusæti.
Keflvíkingar voru nokkuð ágengari í fyrri hálfleik og settu til að mynda skot í stöng hjá Skagamönnum en ekkert var skorað hins vegar.
Í seinni hálfleik héldu Keflvíkingar pressu sinni í átt að marki Skagamanna og þó hurð hafi þó nokkrum sinnum skollið nærri hælum þá náðu Keflvíkingar einfaldlega ekki að koma boltanum yfir línuna.
En það gerðu hins vegar gestirnir á 89. mínútu, gegn öllum gangi leiksins, þegar Oliver Stefánsson skoraði fyrir gestina og stuðningsmenn Skagamanna trylltust.
Þar við sat og Skagamenn hirtu þar með ansi dýrmæt stig í fallbaráttunni.
Það má svo sem kalla þennan sigur gestanna af Akranesi stuld, en því má ekki gleyma að þeir vörðust vel ágangi heimamanna og héldu hreinu sínum megin.
Vissulega nokkuð til að byggja á til að forða liðinu frá falli.
Keflvíkingar sem fyrir leik eygðu von um að komast upp í efri hlutann fóru langt með að stimpla sig út úr þeirri baráttu með þessu tapi og það sáust greinileg vonbrigði hjá liði heimamanna eftir leik.