Eins og tíminn hafi stöðvast

Cyera Hintzen fagnar með markverðinum Söndru Sigurðardóttur í gær.
Cyera Hintzen fagnar með markverðinum Söndru Sigurðardóttur í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er æðisleg tilfinning,“ sagði Cyera Hintzen, bandarískur framherji Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:1-sigur liðsins á Breiðabliki í bikarúrslitum á Laugardalsvelli í gær.

„Við féllum úr leik í undanúrslitum á síðasta ári. Það var leiðinlegt og því er sérstaklega gaman að fara í úrslit í ár og vinna,“ bætti hún við.

Breiðablik fór með 1:0-forystu inn í hálfleikinn en Valsliðið var töluvert betra í seinni hálfleik og vann að lokum verðskuldaðan sigur. „Við vorum rólegri á boltanum og að reyna að senda í lappir, frekar en að fara í löngu boltana. Þegar við náðum að róa leikinn okkar aðeins varð þetta betra.“

Cyera skoraði fyrra mark Vals er hún stakk vörn Breiðabliks af, dansaði framhjá Evu Persson í markinu og skoraði fallegt mark.

„Það var rafmagnað og orkan sem ég fann var ótrúleg. Stuðningsmennirnir voru æðislegir og þetta var mjög góð tilfinning. Það var eins og tíminn hafi stöðvast aðeins á meðan ég var í færinu og þegar boltinn var í netinu var orkan frábær.“

Valur er með fjögurra stiga forskot á Breiðablik þegar liðin eiga fimm leiki hvort eftir. Sóknarmaðurinn vill vinna tvöfalt í ár. „Við megum ekki missa einbeitinu og fagna of mikið í dag. Við viljum vinna deildina líka,“ sagði Cyera Hintzen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka