ÍBV tók á móti Stjörnunni í Bestu deild karla í Vestmannaeyjum í dag. Leikurinn var stórskemmtilegur og endaði með sannfærandi 3:1 sigri Eyjamanna.
Fyrir leikinn voru Eyjamenn með 15 stig í níunda sæti deildarinnar og komnir í óþægilega stöðu nálægt botninum eftir tap gegn ÍA í síðustu umferð. Stjarnan var með 28 stig í fimmta sæti og hörð Evrópubarátta fyrir stafni hjá þeim.
Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Stjörnumenn þar sem Emil Atlason, þeirra helsti markaskorari, þurfti að fara meiddur af velli eftir fáeinar mínútur. Hann hafði þá meiðst eftir tæklingu frá Elvis Bwomono sem Ívar Orri dómari leiksins hafði metið löglega.
Eftir um það bil korters leik tóku Stjörnumenn öll völd á vellinum og áttu m.a. sláarskot. Á 23. mínútu braut Einar Karl Ingarsson svo ísinn með laglegu marki frá vítateigsboganum. Stjörnumenn náðu þá góðum spilkafla á þriðjungi Eyjamanna sem endaði með því að Tristan Freyr tíaði upp Einar Karl sem, eins og áður sagði, kláraði færið vel, 0:1 fyrir gestunum.
Rétt um korteri síðar var hinsvegar komið að Andra Rúnari Bjarnasyni. Þá fékk hann langa sendingu inn á teig Stjörnumanna og stangaði hann framhjá Haraldi í marki gestanna. Mark upp úr nánast engu og Eyjamenn búnir að jafna leikinn 1:1.
Það var ekki nema þrem mínútum síðar, þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, er Andri Rúnar skoraði aftur og kom Eyjamönnum yfir í leiknum. Halldór Jón kom sér þá upp vinstri kantinn og kom boltanum inn á teiginn til Andra Rúnars. Hann tók vel við boltanum og kláraði enn betur í mark Stjörnumanna. Fleira atvikaðist ekki í fyrri hálfleik og staðan 2:1 fyrir heimamönnum.
Í síðari hálfleik byrjuðu heimamenn af krafti og fóru strax að spyrja Stjörnumenn spurninga. Á 53. mínútu vann Alex Freyr boltann af Jóhanni Árna í uppspili Stjörnunnar og voru Eyjamenn allt í einu komnir í yfirtölu á þriðjungi Stjörnunnar. Jóhann Árni greip þá til þess ráðs að brjóta á Alexi Frey uppskar réttilega gult spjald fyrir. Hann hafði hinsvegar einnig fengið gult spjald í fyrrihálfleik og var því rekinn af velli. Stjörnumenn marki undir og manni færri.
Eftir brottreksturinn gegnu Eyjamenn á vaðið og skoraði Arnar Breki þriðja mark Eyjamanna eftir frábært spil hjá heimamönnum. Kundai fann sig með boltann fyrir utan teig gestanna, sendi inn á Andra Rúnar sem koma Arnari Breka innfyrir vörn Stjörnunnar með snoturri hælsendingu. Haraldur gerði vel í marki Stjörnunnar og varði vel frá Arnari Breka, en boltinn barst hinsvegar þægilega fyrir Arnar Breka aftur sem kláraði í autt markið. 3:1 fyrir heimamönnum í ÍBV og þeir manni fleirri.
Eftir þetta fjaraði leikurinn svolítið út og í raun lítil hætta á að Stjarnan næði að vinna sig inn í leikinn aftur, þrátt fyrir ágætis sóknartilburði öðru hverju.
Sigur heimamanna staðreynd og ÍBV með 18 stig í niúnda sæti, og ná með sigrinum að slíta sig aðeins frá fallsvæðinu, a.m.k. um stundarsakir. Stjörnumenn missa hinsvegar af dýrmætum stigum í Evrópubaráttunni og sitja enn í fimmta sæti með 28 stig