Markalaust hjá KR og FH

Oliver Heiðarsson úr FH og Aron Kristófer Lárusson hjá KR …
Oliver Heiðarsson úr FH og Aron Kristófer Lárusson hjá KR eigast við í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Þótt færin væru ekkert sérstaklega mörg í Vesturbænum í dag var leikurinn fjörugur. Liðin urðu samt að sætta sig við skiptan hlut í markalausu jafntefli, þegar leikið var í efstu deild karla í fótbolta, Bestu deildinni.  

Bæði lið reyndu strax sterkan sóknarleik til að ná undirtökunum en samt vantaði upp á færin því varnarmenn voru líka viðbúnir og áttu ekki í miklum vandræðum með að loka á sóknarleikinn.  Þegar rúmar 15 mínútur voru liðnar fóru þó Vesturbæingar að komast í betri stöðu með þyngri sóknum enda fór varnarbarátta Hafnfirðinga mikið til fram á vítateigslínu þeirra.

Fyrsta raunverulega færið kom á 17. mínútu þegar Hallur Hansson rakti boltann upp hægri kantinn og gaf síðan fyrir markið en sendingin, eða skotið, fór beint á markið og Atli Gunnar Guðmundsson markmaður náði að slá boltann í slána og yfir.

Á 25. mínútu kom síðan nokkuð sem hefði getað orðið að góðri sókn hjá FH en Úlfi Ágústi Björnssyni mistókst algerlega að gera eitthvað með góða sendingu Kristins Freys Sigurðssonar upp hægri kantinn. 

Á 43. mínútu kom síðan hitt góða færið í fyrri hálfleik þegar Atli Sigurjónsson og Sigurður Bjartur Hallsson sneru hressilega á vörn FH inni í vítateig, sem lauk með að Atli náði skoti af markteigslínu. Þar sem hann þurfti að teygja sig aðeins í boltann fór hann rétt yfir slána.  KR-ingar voru að byrja að fagna í stúkunni en FH-ingar supu hveljur.

Þótt færin hafi látið á sér standa í seinni hálfleik var hann þó strax fjörugur því bæði lið reyndu virkilega að ná góðum sóknum, helst skyndisóknum. Það liðu samt 15 mínútur fram að fyrsta færi en þá átti Atli Sigurjónsson gott skot hægra megin út teignum eftir góða sendingu Theódórs Elmars Bjarnasonar. Skotið fór rétt framhjá vinstri stönginni. Næsta umtalsverða færi kom á 68. mínútu þegar FH gekk ekki sem best að hreinsa alveg frá marki sínu, boltinn rann þá út úr teignum á Kennie sem þrumaði á markið en boltinn fór rétt framhjá stönginni. 

Niðurstaðan í dag breytir engu um stöðu liðanna því KR er enn í 6. sæti og FH í því tíunda. Næstu leikir liðanna eru næsta sunnudag þegar FH sækir Leikni heim í Breiðholtið en KR fer upp á Akranes til móts við ÍA.

Stundum hugsa leikmenn meira um að tapa ekki, síður að vinna leiki. Lengi vel var það svo í þessum leik. Varnarmenn beggja liða voru á tánum, lásu sóknir mótherja með þeim árangri að sóknarmenn komust lítt áleiðis. 

KR 0:0 FH opna loka
90. mín. Haraldur Einar Ásgrímsson (FH) fær gult spjald Braut á Kennie.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert