Þær skildu allt eftir

Natasha Anasi í baráttunni við Sólveigu Larsen í gær.
Natasha Anasi í baráttunni við Sólveigu Larsen í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Ásmundur Arnarsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks í fótbolta, var að vonum svekktur eftir 1:2-tap fyrir Val í bikarúrslitum á Laugardalsvelli í gær. Breiðablik var með 1:0-forskot í hálfleik en Valsliðið var sterkara í seinni hálfleik og sneri taflinu sér í vil.

„Þetta var flottur fyrri hálfleikur og það var góður kraftur í okkur. Liðið var hættulegt og við náðum forystunni. Valsararnir koma inn í seinni hálfleikinn með meiri kraft en við og taka völdin á vellinum. Okkur vantaði kraft til að halda sama dampi og í fyrri hálfleik og svo gefum við þeim ódýr mörk, því miður,“ sagði Ásmundur við mbl.is eftir leik.

Eins og gefur að skilja vildi Ásmundur fá meira af því sama í seinni hálfleik frá sínu liði, en það gekk ekki eftir. „Við ætluðum að halda áfram því sem við vorum að gera en sumir leikmenn hjá mér hafa ekki verið að spila mikið af leikjum undanfarið og það er kannski eitthvað sem við réðum ekki við og því fór krafturinn aðeins úr okkur.

Ásmundur Arnarsson þjálfar Breiðablik.
Ásmundur Arnarsson þjálfar Breiðablik. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ég er ánægður með stelpurnar heilt yfir í leiknum og yfir allan leikinn. Þær skildu allt eftir og gerðu allt sem var mögulega hægt að ætlast til af þeim. Því miður dugði það ekki til gegn sterku Valsliði.“

Breiðablik fékk tækifæri til að jafna í 2:2 undir lokin en inn vildi boltinn ekki. Sandra Sigurðardóttir varði m.a. virkilega vel frá Önnu Petryk úr hættulegri aukaspyrnu.

„Það vantaði herslumuninn. Við vorum nálægt þessu í hörkuleik. Þessi leikur hefði alveg eins getað endað okkar megin. Krafturinn var okkar í fyrri, þeirra í seinni og því miður ná þær tvær mörkum og við einu. Það munaði ekki miklu í dag,“ sagði þjálfarinn.

Breiðablik hefur orðið fyrir nokkrum stórum áföllum að undanförnu. Lykilmenn eru ýmist farnir eða meiddir, liðið fallið úr leik í Meistaradeildinni og svo tap í bikarúrslitum.

„Það þýðir ekkert annað en að líta upp, horfa fram á veginn og horfa á næsta verkefni. Það er búið að vera fullt í gangi og við höfum smá tíma til að tjasla okkur saman núna og byggja upp stemningu fyrir lokahlutann af mótinu. Við eigum fimm leiki eftir og við þurfum að stíga upp úr þessu og gera betur,“ sagði Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka